Aukinn þrýstingur á hækkun lægstu launa

24. 08, 2005
– Illa gengur að fá ófagmenntað starfsfólk til starfa á leikskólum.

Þegar niðurstöður starfsmats Reykjavíkurborgar lágu fyrir í desember 2004 var ljóst að launabilið á leikskólum hefur aukist á milli almennra starfsmanna og þeirra sem sinna meiri ábyrgðarstörfum. Það olli að vonum töluverðri óánægju meðal almennra starfsmanna og nú er svo komið að illa gengur að manna þessi störf.

30. nóvember nk. eru kjarasamningar Eflingar við Reykjavíkurborg lausir og má vænta þess að það verði verulegurþrýstingur á að hækka lægstu launin . Þá hefur verið bent á að núverandi launatafla Reykjavíkurborgar sé mjög óhagstæð hjá yngsta aldurshópnum, en byrjunarlaun miðast við einstaklinga yngri en 25 ára sem þýðir að 19 ára einstaklingur þarf að bíða í 6 ár eftir að hækka um starfsaldursþrep. Í nýgerðum kjarasamningi við önnur sveitarfélög miðast hins vegar byrjunarlaun við einstaklinga yngri en 20 ára.

Því má gera ráð fyrir að í komandi kjaraviðræðum við Reykjavíkurborg verði meðal annars lögð áhersla á nýja launatöflu þar sem reynt er að lagfæra kjör þessa hóps.