Laun á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin

Munurinn á dagvinnulaunum á Íslandi og hinum Norðurlöndunum er mun minni meðal tekjuhærri hópanna en hjá tekjulægri hópunum. Þetta kemur fram í úttekt ASÍ um regluleg dagvinnulaun á almennum vinnumarkaði á Norðurlöndunum árið 2013. Í úttektinni var skoðaður launamunur á Norðurlöndunum eftir einstaka starfsstéttum að teknu tilliti til skattkerfis áhrifa og verðlags.

Þannig eru dagvinnulaun stjórnenda á Íslandi í raun 5% hærri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Hluta af þessum mun má skýra með minni tekjujöfnunaráhrifum íslenska skattkerfisins, þar sem hátekjur hér á landi eru skattlagðar mun minna en á hinum Norðurlöndunum og því verður hlutfallslega meira eftir í buddu hátekjuhópa hér á landi.

Mestur munur á dagvinnulaunum er gagnvart verkafólki og þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki.  Hér á landi eru dagvinnulaun verkafólks allt að 30% lægri en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum.

Ítarlegri upplýsingar frá ASÍ má nálgast hér.