Nýtt starfsmat hjá sveitarfélögunum – Reykjavíkurborg hefur þegar leiðrétt starfsmatið

Í lok ársins 2014 voru laun starfsmanna Reykjavíkurborgar leiðrétt miðað við nýtt endurmat á störfum og nú hálfu ári síðar eru loksins komnar sambærilegar niðurstöður í starfsmati hjá öðrum sveitarfélögum svo sem Kópavogi, Seltjarnarnesi og Hveragerði.  Samtals eru þrettán þættir sem lagðir eru til grundvallar í starfsmatinu en þrír þeirra hafa mest áhrif á stiganiðurstöðu starfanna nú, þ.e. ábyrgð á starfsfólki, hugrænar kröfur starfa og líkamleg færni. Endurskoðun starfsmatsins tímabærTalsvert hafði dregist að fá niðurstöður úr endurskoðun starfsmats hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga en Reykjavíkurborg hafði þegar greitt samkvæmt nýju endurmati á síðasta ári.Starfsmatskerfið er samstarfsverkefni sveitar- og stéttarfélaga og um það samið í kjarasamningum en kerfið er að breskri fyrirmynd. Kerfið var innleitt hér á landi árið 2002 en hefur síðan ekki verið uppfært til samræmis við þróun þess í Bretlandi. Sérstök Verkefnastofa starfsmats var sett á laggirnar af Reykjavíkurborg og Sambandi íslenskra sveitarfélaga til að vinna tillögur að breytingum á kerfinu og fól endurskoðunin meðal annars í sér breytingar á spurningakerfi, þrepa- og þáttaskilgreiningum og túlkun einstakra þátta kerfisins. Framkvæmdanefnd starfsmatsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðsemjenda þess vann síðan úr tillögunum og tók á grundvelli þeirra og upplýsinga frá sveitarfélögum um inntak starfa ákvörðun um breytingar á mati einstakra starfa. Í þessu fólst að leitað var eftir starfslýsingum frá öllum sveitarfélögunum og kom í þessari vinnu skýrt í ljós að gerðar eru meiri kröfur en áður um gæði þjónustu.Það er því ánægjuefni að loks hefur náðst nokkuð samræmd niðurstaða í starfsmati sveitarfélaganna.Launabreytingar afturvirkarLíkt og í kjarasamningum við Reykjavíkurborg var það hluti af samningsatriðum við Samband íslenskra sveitarfélaga að niðurstöður starfsmats myndu gilda frá upphafi kjarasamningsins sem tók gildi 1. maí 2014.  Því munu launaleiðréttingarnar nú gilda afturvirkt frá þeim tíma.  Niðurstöðurnar eru mismunandi eftir störfum en fjölmennustu hóparnir hjá Eflingu  hækka um 1-4 launaflokka. Hægt er að sjá breytingarnar á einstökum störfum hér.Miðað er við að breyting á launaröðun starfsmanna samkvæmt nýju mati komi til framkvæmda 1. ágúst nk., en þó ekki síðar en 1. september nk. Sveitarfélögin hafa svigrúm til 1. október næstkomandi til að framkvæma þessa afturvirku launabreytingu.