Nýútskrifaður leikskólakennari

27. 07, 2011

myndnam2 

Á eftir að sakna Eflingar

– segir Júlíana Auðunsdóttir, nýútskrifaður leikskólakennari og fyrrum Eflingarfélagi

Það var ánægjulegur dagur í lífi Júlíönu Auðunsdóttur þegar hún útskrifaðist sem leikskólakennari úr Háskóla Íslands þann 11. júní sl. Þetta var mikil vinna en hafðist á endanum, segir hún en hún á von á barni í september og því nóg um að vera hjá henni. Júlíana byrjaði á að fara á fagnámskeið og í leikskólabrúna áður en hún sótti um í háskólanum. Það var dálítið stökk fyrir mig að hætta í vinnu og fara í fullt nám, segir hún. Hún segist hafa misst dálítið tengslin við leikskólastarfið á meðan hún var í skólanum. Ég sakna þess að starfa á leikskóla og hlakka til þess að byrja aftur. Hún segir að það hafi verið frábært þegar hún var í leikskólabrúnni að geta starfað á leikskóla meðfram náminu en það var ekki hægt með háskólanáminu.

Bekkurinn minn var samrýndur og þetta var fínn hópur segir hún. Bekkjarfélagarnir hafi hjálpast að og lært saman fyrir próf og verið saman í alls konar hópavinnu. Nemendurnir koma úr fjölbreyttum áttum, sumir með enga reynslu en aðrir með mikla en það náðu allir svo vel saman, segir hún.

Júlíana er í síðasta hópnum sem útskrifast sem leikskólakennari eftir þriggja ára nám en í dag er námið fimm ár. Ég er ekki nógu sátt við þessa breytingu því eins og leikskólamálin standa í dag þá vantar fólk og það eru ansi margir sem vilja ekki fara í fimm ára nám segir hún og segist vita til þess að 1. árs nemar hafi hætt í náminu eftir að þessu var breytt og færri sækja um í dag miðað við hvað áður var.

Júlíönu fannst námið skemmtilegt en finnst að leggja hefði mátt meiri áherslu á það sem nýtist leikskólakennurum betur í starfi með börnin. Ég hefði viljað fá meiri fræðslu t.d. um hegðunarvandamál og greiningar og að sleppa frekar nokkrum áföngum í teikningu eða náttúrufræði. Það vantar aðeins meiri praktík í námið, það hefði mátt fara betur í það sem við í leikskólanum tökumst á við daglega, segir hún.

Um tilfinninguna að vera orðinn leikskólakennari eftir mörg ár í starfi sem almennur starfsmaður segir hún að það breytist í raun ekki mikið. Nema ef ég yrði deildarstjóri því þá er maður meira í stjórnun annars held ég að starfsreynslan sé númer eitt, tvö og þrjú. Ég verð hreinlega að venja mig við að ég sé orðinn leikskólakennari.