Leiðari fréttablaðs Eflingar

30. 08, 2005

Þekking er mikilvægur hluti af kjörum okkar–  segir  Sigurður Bessason í leiðara nýjasta fréttablaðs Eflingar

Kjarasamningar mynda grunn að launakerfi á vinnumarkaði. Laun fólks eru samansett af annarsvegar því sem kjarasamningar gera ráð fyrir en þar til viðbótar kemur það sem fólk semur um í persónubundnum ráðningarsamningum. Mikilvægi kjarasamninga felst í því að setja  skýr lágmörk í launum og réttindum. Um leið er þetta grunnur til að semja ofan á. Persónubundnir ráðningarsamningar eru mikilvægir en þar er tekið tillit til afraksturs, ásamt hæfni, þekkingu og getu þess sem um semur. Hér hafa stéttarfélög komið í vaxandi mæli að því að styðja við bakið á félagsmönnum og skiptir þá mestu máli að bjóða félagsmönnum leiðir til að mennta sig og þjálfa, auka þroska og þekkingu. Menntun og þekking eru grunnur að aðlögunarhæfni og sjálfstrausti að samningsstöðu starfsmanns þegar kemur að því að semja um endanleg ráðningarkjör.

Efling mun nú í haust bjóða félagsmönnum mikið úrval af námi og námskeiðum sem gera starfsmenn hæfari í starfi og þannig öflugri í samskiptum við atvinnurekendur. Í styttri námskeiðum bjóðum við uppá sjálfstyrkingu, framsögn og starfsmannaviðtöl. Í lengra námi bjóðum við m.a. Aftur í nám sem er sérsniðið til að takast á við lesblindu. Í Grunnmenntaskólanum er um að ræða almennt nám á borð við íslensku, stærðfræði og tölvuþekkingu ásamt sjálfstyrkingu og samskiptum. Í Landnemaskólanum er sérsniðið nám fyrir erlenda Eflingarfélaga  en þeir eru nú rúmlega tvöþúsund í Eflingu.