Stofnanasamningar við ríkisstofnanir í endurskoðun

29. 08, 2005

Krafa um leiðréttingu launa

Þegar skrifað var undir aðalkjarasamning við ríki og hjúkrunarheimili fyrir rúmu ári síðan, var einnig gengið frá stofnanasamningi við þær stofnanir þar sem að félagsmenn Eflingar starfa. Í þessum stofnanasamningum var störfum raðað inn í launatöflu fyrir þau starfsheiti sem að félagsmenn Eflingar starfa við.

Aðalkjarasamningurinn við ríki og hjúkrunarheimili gildir til marsloka 2008, en stofnanasamning er hægt að taka til endurskoðunar hvenær sem þörf þykir. Ýmis störf voru enn í mótun þegar gengið var frá stofnanasamningi og eftir þessa árs reynslu telur Efling að endurskoða þurfi störf félagsliða og fleiri umönnunarstörf hjá ýmsum stofnunum. Stærsti samningsaðili Eflingar er Landspítalinn og hafa verið haldnir tveir samstarfsnefndarfundir varðandi nýja innröðun fyrir félagsliða í launatöflu. Samningsaðilar voru sammála um að niðurstaða um nýja innröðun myndi liggja fyrir nú í byrjun september.

Samhliða er verið að hefja viðræður við fleiri stofnanir og munum við fylgja því fast eftir að niðurstöður liggi fljótlega fyrir.