Starfsmannamál leikskóla – einbeitum okkur að raunhæfum lausnum. Yfirlýsing frá Eflingu – stéttarfélagi

22. 09, 2005

Efling-stéttarfélag er nú að vinna af fullum krafti að undirbúningi að nýjum kjarasamningi fyrir almenna starfsmenn á leikskólum borgarinnar. Reykjavíkurborg hefur fyrir sitt leyti óskað eftir því að samningum sé flýtt eins og kostur er. Efling-stéttarfélag hefur tekið undir þau sjónarmið að kjarabætur komi sem fyrst til þessara starfsmanna. Borgin hefur einnig kynnt aðrar aðgerðir til að reyna að mæta þessu erfiða ástandi þar sem mikinn fjölda starfsmanna vantar til að geta haldið uppi eðlilegri þjónustu.

Það er staðreynd sem ekki verður litið framhjá að almennir starfsmenn leikskólanna halda uppi starfsemi þeirra í ríkum mæli og starfsemin væri meira og minna lömuð ef ekki kæmi til vinnuframlags þessara starfsmanna.

Efling-stéttarfélag hefur unnið að menntun almennra starfsmanna leikskólanna áratugum saman og nýjasta lausnin er starfsnám fyrir leikskólastarfsmenn sem hægt er að taka með vinnu eða með formlegri skólagöngu og afla sér þannig þekkingar til að takast á við það hlutverk að sjá um uppeldistörf barna á leikskólum borgarinnar.

Þannig sér Efling-stéttarfélag fyrir sér hluta af framtíðarlausn á vanda leikskólanna í Reykjavík. Meginatriðið nú er að taka strax á launakjörum og réttindum almennra starfsmanna leikskólanna þannig að starfið verði eftirsóknarverðara og metið að þeim verðleikum sem eiga að felast í menntunar- og uppeldisstörfum.

Efling-stéttarfélag varar við ómálefnalegum fréttaflutningi og þröngsýni þeirra sem einungis sjá óraunhæfar lausnir í þessu máli. Þar má nefna hugmyndir um að loka deildum á leikskólum, að draga úr þjónustu við börn og foreldra eða kröfur um lausnir í menntunarmálum sem tekur mörg ár að framkvæma. Borgaryfirvöld, stéttarfélögin og starfsmenn þeirra standa frammi fyrir ástandi sem þarf að leysa nú þegar. Það verður ekki gert með óraunhæfum hugmyndum eða tala stöðugt niður störf þeirra sem halda starfsemi leikskólanna gangandi að stórum hluta.

Efling stéttarfélag hvetur þá sem hlut eiga að þessu máli að nálgast það með það fyrir augum að vinna að raunhæfum lausnum. Samningaviðræður eru nú í fullum gangi og stefnt að því að ná kjarasamningi á næstu vikum. Til að það sé hægt, þarf að gefa samningamönnum svigrúm til að vinna að lausn þeirra mála í stað þess að dreifa kröftunum í umræðu sem mun ekki skila starfsmönnum, foreldrum eða börnum á leikskólunum raunhæfum niðurstöðum.