Umræðan á að snúast um laun – Þórunn Sveinbjörnsdóttir skrifar um leikskólastarfsmenn

20. 10, 2005

Á leikskólum Reykjavíkur vinna um eitt þúsund félagsmenn Eflingar. Þessir starfsmenn hafa mikla reynslu og þekkingu á uppeldis og umönnunarstörfum. Í þeirri manneklu sem nú ríkir á leikskólunum byggir starfsemi leikskólanna í miklum mæli á þessu starfsfólki. Efling-stéttarfélag hefur í samvinnu við Menntasvið borgarinnar á síðustu árum unnið markvisst að menntamálum leikskólastarfsmanna. Það er miður í þeirri umræðu sem nú á sér stað meðal stjórnmálamanna að stöðugt er talað niður til þessa fólks og látið sem það búi ekki yfir neinni menntun á sviðinu.

Árlega er boðið upp á mörg námskeið sem eru sniðin að þörfum leikskólanna og starfsmanna þeirra.

Þá hefur verið unnið að frekari menntunarleiðum og nýjasta úrræðið er nám fyrir leikskólaleiðbeinendur sem er á framhaldsskólastigi. Í haust hófu 33 einstaklingar þetta nám með vinnu. Boðið er upp á þessa námsleið í Mími –símenntun og í Borgarholtsskóla.

Það eru því mikil vonbrigði að heyra stjórnmálamenn og aðra stagast sífellt á því að 50% starfsmanna leikskólanna séu ófaglærðir. Með þessu er gefið í skyn að starfsfólk sem ekki er með menntun leikskólakennara, búi ekki yfir þeirri þekkingu sem þarf á þessum vinnustöðum. Með þessu er verið að tala niður til starfsmanna. Á því þurfum við ekki að halda. Um það bil 60 % af Eflingarfélögum á leikskólum hefur lokið grunnnámskeiði og um 40% hefur lokið lengra námi og allir leikskólastarfsmenn hafa símenntunaráætlun þar sem lagt er á ráðin um hvaða símenntun hentar viðkomandi best.

Leikskólastarfsmenn þurfa síst af öllu á því að halda að umræða um þá snúist um hvort pláss sé í Kennaraháskólanum fyrir fleira fólk. Í dag á umræðan að snúast um launakjör þessa fólks enda eru kjarasamningar þeirra lausir.

Menntun er af hinu góða og hefur Efling-stéttarfélag ávallt barist fyrir auknum tækifærum fyrir félagsmenn sína á sviði menntunar. Öflugir starfsmenntasjóðir hafa verið byggðir upp fyrir félagsmenn í þessum tilgangi. Nú er mikilvægt að þeir sem um þetta fjalla skoði málið í réttu ljósi og vinni markvisst að því að bæta kjör þeirra sem vinna að uppeldi og umönnun barna og sýni því fólki fulla virðingu í umræðum um þeirra mikilvægu störf.