Alltaf spennandi að sjá niðurstöður

Hulda Anna Arnljótsdóttir fer yfir umsóknir

 

Hverjir fara í Leonardóferðir?

Alltaf spennandi að sjá niðurstöður

Á undanförnum árum hefur skapast mikið samstarf Eflingar við ýmis fyrirtæki um þátttöku í Leonardó mannaskiptaáætlun Evrópusambandsins. Nú í febrúar lauk umsóknarfresti fyrir nýja hópa að sækja um í Leonardó og hefur verið leitað eftir samstarfsaðilum undanfarna mánuði. Þeir sem sýndu því áhuga voru svo boðaðir á fund hjá Eflingu-stéttarfélagi í janúar og málin rædd og verkefnin undirbúin. Viðkomandi vinnustaðir útveguðu sér síðan tengiliði í Evrópu og var þá í framhaldinu unnin viðmikil umsókn með markmiðslýsingum fyrir hvern hóp fyrir sig. 

Hulda Anna Arnljótsdóttir sem er nýkomin til starfa hjá Mími-símenntun vann umsóknina fyrir Eflingu-stéttarfélag í náinni samvinnu og samráði við félagið. Nú í ár er sótt um fyrir átta vinnustaði en þegar svar kemur við umsókninni verður ljóst hvað hver vinnustaður getur sent marga í náms- og kynnisferð í framhaldinu.

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir sem hefur annast allan undirbúning af hálfu Eflingar segir að mikil vinna liggi að baki slíkri umsókn við að ná saman þátttakendum og fá samstarfsaðila á erlendum vettvangi. Þetta er í þriðja sinn sem Efling tekur þátt í þessum ferli. Við erum komin með nokkra reynslu á þessu sviði en það er alltaf jafn spennandi að sjá hver niðurstaðan verður, segir hún.