Hvers virði eru störfin?

15. 03, 2006

Umönnun aldraðra

Hvers virði eru störfin?

Ekki verður lengur unað við aðgerðaleysið

Það gekk illa að manna í störf þeirra sem sinntu umönnun barna hjá Reykjavíkurborg síðastliðið haust.  En það fór hins vegar ekki eins hátt að það gekk jafn illa að manna störf þeirra sem sinntu umönnun aldraðra hjá Reykjavíkurborg.  Þessir hópar höfðu dregist talsvert aftur úr í launum þar sem þeir njóta ekki almenns launaskriðs og kjarasamningur Eflingar við Reykjavíkurborg var ekki laus fyrr en seinni hluta ársins 2005.  Það er skemmst frá því að segja að nýir samningar við Reykjavíkurborg sem tóku gildi frá 1. október 2005 leiðréttu kjör þeirra sem sinna umönnun barna og aldraðra umtalsvert.  Nú hefur tekist eftir launaleiðréttingar að manna umönnunarstörfin sem eru að mestu leyti unnin af konum.

Kjarasamningur við Reykjavíkurborg leiddi til þess að laun þeirra sem starfa við umönnun hjá öðrum sveitarfélögum voru einnig leiðrétt. Konur eru í yfir 90% þeirra umönnunarstarfa sem félagsmanna Eflingar sinna hjá ríki og hjúkrunarheimilum.  Þessi umönnunarstörf snúa nánast eingöngu að umönnun aldraðra. 

Ýmsar ástæður hafa leitt til þess að störf þeirra sem sinna öldruðum er sífellt að verða erfiðari og meira slítandi. Illa hefur gengið að manna störfin sem þýðir aukið álag á þá sem eftir eru á vinnustöðunum.

Allt frá vorinu 2005 hafa trúnaðarmenn á þessum vinnustöðum og Efling reynt að knýja fram viðbrögð frá hjúkrunarheimilum og ríkinu en ekkert hefur gengið.  Nú þegar samið hefur verið við Reykjavíkurborg er launamunurinn fyrir sambærileg störf hjá ríki og hjúkrunarheimilum orðinn slíkur að ekki verður lengur við unað. 

Á meðan byrjunarlaun fyrir almenn umönnunarstörf hjá Reykjavíkurborg eru 134.599 eru sambærileg laun hjá ríki og hjúkrunarheimilum 104.415.

Þá hefur margsinnis verið á það bent að umönnunarstörf hjá ríki og hjúkrunarheimilum eru engan veginn samkeppnishæf við störf á almennum markaði.

Þá er ekki að undra þó að spurt sé:

Hvers virði eru störf við umönnun aldraðra ? Vilja launagreiðendur koma til móts við réttlátar kröfur þessara mikilvægu starfsmanna eða vilja þeir horfa upp á vinnustaðina í upplausn eins og gerðist á leikskólunum í haust???