Ályktun um stöðu kjaramála á hjúkrunarheimilum

21. 04, 2006

Félagsfundur Eflingar 19. apríl 2006

Fjölmennur félagsfundur Eflingar-stéttarfélags samþykkti í kvöld einróma eftirfarandi ályktun:


Ályktun um stöðu kjaramála á hjúkrunarheimilum

Allt frá vorinu 2005 hefur Efling-stéttarfélag reynt að ná fram breytingum á samningi Eflingar og SFH, Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, þar sem til kæmu samsvarandi leiðréttingar og í samningi ríkisins. Þessu hefur alfarið verið hafnað af stjórnendum hjúkrunarheimila.

Undanfarið hafa starfsmenn hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu efnt til aðgerða til að knýja á um leiðréttingu launakjara sinna. Aðgerðir þeirra eru sjálfsprottnar og til þess gerðar að hafa áhrif á fjármála- og heilbrigðisráðuneyti, sem hingað til hafa ekki gefið nein fyrirheit um aukið fjármagn til hjúkrunarheimilanna til að hægt sé að lagfæra kjör þessa fólks.  Með aðgerðunum hafa hátt í 1000 starfsmenn viljað vekja athygli á því misrétti sem þeir búa nú við miðað við aðra hópa við umönnunarstörf sem hafa fengið launaleiðréttingar að undanförnu.

Það er skýlaus krafa þeirra að kjörin verði leiðrétt til jafns við kjarasamning Reykjavíkurborgar frá síðastliðnu hausti. Viðbrögð starfsmanna eru neyðarúrræði launafólks á þessum vinnustöðum til að knýja fram sömu laun fyrir sömu vinnu.

Félagsfundur Eflingar-stéttarfélags tekur undir þessa réttmætu kröfu starfsmanna. Uppsagnir eru nú í gangi á þessum vinnustöðum þar sem gífurlegt álag ríkir vegna þess að of fátt fólk er eftir til að sinna mjög mikilvægum og vandasömum störfum við umönnun aldraðra.

Fundurinn beinir því til samninganefndar hjúkrunarheimilanna og heilbrigðis-  og fjármálaráðuneytis að ganga þegar í stað að kröfum launafólks á vinnustöðunum til að koma í veg fyrir fjöldauppsagnir starfsmanna.