Hjúkrunarheimiladeilan

Hjúkrunarheimiladeilan

Okkur er full alvara

– segir Álfheiður Bjarnadóttir, talsmaður starfsfólks

Þetta hefur verið gríðarlega erfið deila sem við höfum gengið í gegnum á hjúkrunarheimilunum. Ég upplifi þetta þannig að það hafi verið nauðsynlegt fyrir fólkið sjálft að grípa í taumana með aðgerðum sínum. Það var búið að reyna allt annað. Auðvitað finnst okkur þetta neyðarrúrræði að fara í setuverkföll og uppsagnir eru þrautalending. Það er alltaf sárt að þurfa að fara í aðgerðir á svona vinnustöðum. Fólkið á heimilunum eru vinir okkar og skjólstæðingar en ég held að forsvarsmenn hjúkrunarheimilanna hafi ekki áttað sig á þeim þunga sem er í kröfum starfsmanna og okkur er full alvara, segir Álfheiður Bjarnadóttir, talsmaður starfsfólks á hjúkrunarheimilum í viðtali við Eflingarblaðið.

Álfheiður sagði að sér litist betur á stöðuna eftir að fundir hófust með samninganefnd SFH, Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu. Það er ljóst á þessari stundu að það er verið að setja vinnu í þetta en okkur hefur fundist að forsvarsmenn heimilanna og samninganefnd þeirra áttaði sig ekki á því hve málið er alvarlegt. Það er fyrst þegar setuverkföllin hefjast að  menn kveikja á því að fólk er að undirbúa uppsagnir sínar og sættir sig alls ekki við núverandi kjör.

Það er líka löngu tímabært að leiðrétta kjörin enda um hálft ár síðan viðmiðunarhópar okkar hjá Reykjavíkurborg fengu sínar leiðréttingar.  Á síðustu dögum hef ég orðið hóflega bjartsýn á það að okkur takist að leysa þessa deilu, en þá þarf að koma alger skilningur á því að höfum krafist þess að ná fram sömu launum fyrir sömu vinnu miðað við fólk í umönnunarstörfum hjá borginni. Frá því verður ekki hvikað.

Ég held líka að það hafi verið mjög nauðsynlegt að fólkið sjálft kom inn í þetta og skipulagði eigin aðgerðir. Stundum þarf fólk bara að finna það að það þarf sjálft að koma að málum og taka ábyrgðina á eigin kjarabaráttu þegar hefðbundnar og venjulega aðferðir duga ekki. Ég tel að það hafi orðið ákveðin breyting á viðhorfi hjúkrunarheimilanna þegar þessar aðgerðir hófust.

Annars er tvennt fyrir utan þetta sem mig langar að nefna. Annars vegar er það órofa samstaða fólksins sem hefur verið áberandi í þessum slag. Það hefur nefnilega komið í ljós að þetta er samheldinn hópur sem er að berjast fyrir kjörum sínum, hvort sem hann vinnur í Kópavogi, Reykjavík, Hafnarfirði eða Hveragerði. Þetta fólk upplifir allt það sama að launakjörin sem boðið er upp á, eru úr öllum takti við þá ábyrgð og álag sem starfsmenn taka á sig.

Hitt eru vonbrigði mín með ráðamenn þjóðarinnar. Að það skuli þurfa þrýsting dag eftir dag í fjölmiðlum á ráðherra fjármála- og heilbrigðismála til að setja þessi mál í forgang. Það er erfitt að skilja að ráðamenn sjái ekki samhengið í því að lág laun þýða að það vantar fólk til starfa og þeir verði að leggja fram fjármagn til að hægt sé að semja við fólkið.

En ég vil leggja áherslu á það að við eigum víðtækan stuðning við málstað okkar í þjóðfélaginu. Skjólstæðingar okkar og aðstandendur hafa sýnt okkar málstað virðingu og samúð. Okkur þykir vænt um þetta fólk sem við önnumst inni á heimilunum en því miður er það svo að allar aðgerðir í launamálum bitna á einhverjum. Ég vona bara að ráðamenn skilji að okkur er full alvara og við munum láta sverfa til stáls í þessu máli ef ekki næst að semja, segir Álfheiður Bjarnadóttir að lokum.