Trúnaðarmenn í Reykholti

Árangursríkt nám

Trúnaðarmenn í Reykholti

Efnt hefur verið til námsferða fyrir trúnaðarmenn sem lokið hafa Trúnaðarmannanámskeiði II en að þeim loknum standa trúnaðarmönnum til boða margvísleg stutt námskeið til að bæta stöðu sína sem trúnaðarmenn. Á síðasta ári voru farnar nokkrar námsferðir með trúnaðarmönnum í einn dag en þá kom fram sú hugmynd að styrkja tengslin með því að fara í lengri ferðir.

Þess vegna voru undirbúnar þrjár námsferðir í Reykholt í Borgarfirði þar sem gist var eina nótt. Námskeiðið var í samtalstækni, rökstuðningi og úrlausn verkefna fyrir trúnaðarmenn í skipulögðum vinnubrögðum.

Þessir þrír hópar voru mjög ánægðir með árangurinn og telja þetta vera vænlega leið til að styrkja stöðu trúnaðarmanna í framtíðinni.

Kennurum frá Mími–símenntun tókst vel upp við að stýra hópeflisleikjum og kennslutímunum. Þá voru bæði forystumenn og starfsmenn Eflingar-stéttarfélags með í þessum ferðum en það er einn mikilvægur þáttur í góðum samskiptum milli trúnaðarmanna og stéttarfélagsins þeirra.

Frábært og uppbyggilegt námskeið

– segir Sigríður Eygló Hafsteinsdóttir

Sigríður Eygló Hafsteinsdóttir vinnur á leikskólanum Klettaborg og hefur verið trúnaðarmaður í tæp fimm ár. Ég hóf störf á leikskólanum fyrir 16 árum og starfið er alltaf jafn skemmtilegt, segir hún. Ég er afskaplega þakklát fyrir að hafa átt þess kost að koma hingað og fá aukna fræðslu um störf trúnaðarmanna og skemmta mér með frábærum félögum og kennurum.

Sigríður segir að samskiptaverkefni í upphafi hafi verið lærdómsrík. Verkefnið fólst m.a. í því að kennararnir tóku að sér hlutverk starfsmanna sem áttu við ólík vandamál að stríða á vinnustöðum og vildu ræða þau við trúnaðarmenn sína. Hver hópur fékk tvo einstaklinga í viðtöl og þegar málsatvik lágu fyrir áttum við að benda þeim á einhverjar lausnir. En það gekk ekki nógu vel í mínum hópi vegna þess að kennararnir sýndu snilldarleik í því að búa til vandamál sem voru erfið úrlausnar. Sem trúnaðarmaður gæti maður þurft að takast á við svona mál og núna er ég miklu betur undirbúin ef til þess kemur, segir hún.

Við fengum tækifæri til þess að viðra okkur og fræðast um sögu Snorra Sturlusonar og Reykholts. Þegar við komum aftur á hótelið beið okkar heitt kaffi og meðlæti og voru veitingarnar vel þegnar. Svo hófst vinnan aftur á mannaskiptaverkefni. Að því loknu fórum við út og gerðum nokkrar vel valdar slökunaræfingar og héldun svo uppá herbergi til þess að undirbúa okkur fyrir kvöldið. Dagskráin hófst á kvöldverði og síðan fluttu þátttakendur frumsamin skemmtiatriði sem vöktu mikla kátínu viðstaddra.

Næst á dagskránni var síðan verkefnavinna við rökstuðning í litlum hópum og námskeiðinu lauk með umfjöllun um námsráðgjöf á vinnustöðum.

Frábært námskeið og uppbyggilegt, sagði Sigríður.