Fyrrverandi formaður Sóknar 100 ára

11. 07, 2006

Fyrrverandi formaður Sóknar 100 ára

Þótti ekki mjög leiðitöm

– segir Margrét Auðunsdóttir

Margrét Auðunsdóttir, fyrrver­andi formaður Starfsmannafélagsins Sóknar, varð 100 ára þann 20. júní sl. Margrét var í forystu félagsins á árunum 1956 til 1972 eða samfellt í sextán ár og var þekkt af dugnaði og festu í störfum sínum fyrir félagið og verkalýðshreyfinguna. Hún dvel­ur á Hjúkrunarheimilinu Grund og þangað lá leið okkar til þess að ræða við þessa merku baráttukonu í tilefni dagsins.

Margrét var fyrst spurð hverju hún þakkaði að hafa náð svona háum aldri. Hún sagði að sem barn hefði hún setið yfir kvíaám á sumrin í Landbroti í Austur Skaftafellssýslu, þar sem hún ólst upp. Ég borðaði líka mikið af krækiberjum þegar ég sat yfir ánum og svo hef ég verið dugleg að synda allt mitt líf. Þetta á örugglega sinn þátt í því að ná svo háum aldri, segir hún.

Langlífi er algengt í móðurættinni. Móðir mín átti sex systkini sem öll komust yfir áttræðisaldur og ein systir hennar varð 101 árs. Þannig að hár aldur er ekkert einsdæmi í fjölskyld­unni, segir hún. 

Þegar hún er beðin um að rifja upp hvernig hún hefði dregist inní félagsstarfið hjá Sókn fer hún aftur til ársins 1952. Ég vann á þeim tíma í eldhúsinu á Landspítalanum og þá kom fulltrúi frá Alþýðusambandi Íslands, Jón Hjálmarsson á vinnustaðinn og spurði stúlkurnar hvort að þær vildu ekki ganga í Sókn. Þegar hann kom til mín hafði ég ákveðið að fylla út inngöngubeiðnina vegna þess að mig langaði til að sjá hvernig Jóni Sigurðssyni sem þá var framkvæmdastjóri ASÍ yrði við. Hann þekkti mig og vissi að ég var nokkuð róttæk í pólitíkinni og þótti ekki mjög leiðitöm, segir hún.

Deila dró hana í kjarabaráttuna

En svo var það eiginlega deila, segir hún, sem kom upp eftir ansi hart verkfall skömmu fyrir jólin árið 1952 sem varð þess valdandi að ég fór að taka meiri þátt í kjarabaráttunni. Deilan snérist um hvort hægt væri að skylda starfsfólk á spítölum til að taka fæði á vinnustaðnum og draga síðan kostnaðinn af laununum eða að fólkið fengi sjálft að ráða því hvort það tæki fæðið og sú varð niðurstaðan. Þannig að fullnaðarsigur vannst og ég var nokkuð sátt við mína framgöngu í þessari deilu.

Margrét segir að upp frá þessu hafi myndast stuðningshópur um sig og hann hafi ákveðið að hún gæfi kost á sér í formannsstarfið árið 1956. Ég hlýddi kallinu auðvitað og náði kjöri og var formaður Sóknar til ársins 1972.

Hún segir líka að verkalýðsbaráttan hafi breyst mikið, bæði til góðs og ills á þeirri hálfu öld sem síðan er liðin frá því hún hóf afskipti af verkalýðsmálum. Ég er t.d. mjög ósátt við að ríkisvaldið þurfi alltaf að koma að gerð kjarasamninga með einum eða öðrum hætti. Ég tel reyndar að slík afskipti eigi meðal annars stóran þátt því launamisrétti sem viðgengst hér og hefur lengi verið svartur blettur á íslensku samfélagi, segir hún.

Aðspurð sagðist Margrét hafa fylgst með launadeilu starfsfólks á hjúkrunarheimilum og hún sé afskaplega stolt af konunum sem voru þar í forsvari. Ég tel að þar hafi unnist mikilvægur sigur í baráttunni fyrir bættum kjörum launafólks, segir hún.

Þegar hún er spurð hvaða málefni séu mikilvægust fyrir verkalýðshreyfinguna í nánustu framtíð, segir hún að velferðarmálin og fræðslumál hljóti að vera efst á listanum og umhverfis- og atvinnumálin komi þar strax á eftir. Ég hef miklar áhyggjur af þessum álfyrirtækjum og virkjunum sem manni virðist að þeir sem ráða í pólitíkinni sjái sem eina úrræðið í uppbyggingu atvinnulífsins á næstu árum, segir hún. Ég held að þessir menn hefðu frekar átt að styðja betur við íslenskan iðnað og sjávarútveginn og nota  umhverfismálin og fleiri góð mál sem hafa verið í umræðunni undanfarin ár, til þess að skapa fjölbreyttara atvinnulíf, laust við mengun og aðra óáran sem fylgir stóriðjuskrímslum. 

Ég vona bara að verkalýðshreyfingin taki þátt í að gæta landsins okkar og efla velferð fólksins sem á eftir að búa þar um ókomna framtíð, sagði Margrét að lokum

Fréttablað Eflingar óskar Margréti innilega til hamingju með afmælið og þakkar henni fyrir samfylgdina að undanförnu og um ókomin ár.