Samkomulag ASÍ og SA

30. 08, 2006

Samkomulag ASÍ og SA frá 1. júlí 2006

Launahækkun á almennum vinnumarkaði

Þeir félagsmenn sem fá greitt samkvæmt kjarasamningi sem gildir fyrir almenna markaðinn ættu nú að hafa séð hvort að launahækkun – sem átti að taka gildi 1. júlí 2006 – hafi skilað sér í launaumslagið.  Hér er átt við samkomulag milli ASÍ og Samtaka atvinnulífsins sem gengið var frá 22. júní síðast liðnum og felur annars vegar í sér sérstaka hækkun kauptaxta og hins vegar launaþróunartryggingu. 

Talsvert hefur verið um að félagsmenn hafi leitað til félagsins og óskað eftir upplýsingum um hvort að launagreiðslur þeirra séu réttar miðað við samkomulag ASÍ og SA.  Við nánari skoðun hafa komið upp tilvik þar sem umsamdar launahækkanir hafa ekki skilað sér að fullu.  Því hvetjum við félagsmenn til að fylgjast með hvort að þeir hafi fengið umsamdar hækkanir.

Samkomulagið felur í sér 15.000 kr. hækkun á mánaðarlaunataxta gildandi kjarasamninga og sérkjarasamninga.  Heimilt er að lækka viðbótargreiðslur á móti sem eru ekki afkastatengdar.  Samkomulagið tryggir einnig að starfsmaður sem er í starfi í júlíbyrjun 2006 og hefur starfað samfellt hjá sama vinnuveitanda frá júní 2005 fái að lágmarki 5,5% launahækkun á þeim tíma.  Tekjutrygging fyrir fulla dagvinnu er 123.000 kr. á mánuði frá 1. júlí 2006.  Hægt er að fá ítarlegri upplýsingar á vef Eflingar undir kjaramál, www.efling.is/kjaramal.

Þá er rétt að taka það fram að þessar launahækkanir gilda ekki fyrir þá sem starfa hjá ríki eða sveitarfélögum.