Leiðari

11. 09, 2006

Það er verk að vinna

Félagsmenn Eflingar eiga á hverju ári kost á nýju og fjölbreyttara námi á vegum félagsins og tengdra fræðsluaðila. Þátttaka félagsmanna eykst að sama skapi. Sú mikla áhersla sem Efling-stéttarfélag hefur lagt á fræðslumálin á undanförnum árum er því að skila sér af fullum krafti til félagsmanna. Sífellt fleiri nýta sér réttindi sín í fræðslusjóðunum og tekist hefur að semja um aukin réttindi og nýja námskosti fyrir félagsmenn og tryggja um leið fjárhagslegan stuðning til menntunar.

Með nýjum námsleiðum og fjölbreyttari kostum í námi er draumsýn sem byggt var á í kjarasamningunum 2000 hægt og örugglega að verða að veruleika. Að láta verkin tala og koma þessu í framkvæmd kallar á marga samstarfsaðila og áhugasamt fólk í öllu starfsumhverfinu. Það er mat Eflingar-stéttarfélags að þróun námstilboða hjá Mími-símenntun skipti félagsmenn afar miklu máli. Samstarfsaðilar sem hafa sömu markmið og vilja til að móta námsleiðir og taka þátt í þróun og undirbúningi námsbrauta eru mjög mikilvægir.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur markað sér sess í þróunarvinnu og við að gera námskrár fyrir nýjar námsleiðir á hinum almenna vinnumarkaði. Mikilvægt er að samstarfsaðilar hafi rétt viðhorf til menntunar og ekki síður til fólks þannig að kennslan taki mið af því hvar einstaklingurinn er staddur, hvaða bakgrunn hann hefur og hvernig kennsluaðferðir henta honum. Þessir þættir hafa úrslitaþýðingu þegar fólk mætir til leiks að hefja nám að nýju, oft eftir langt hlé frá námi.

Það er verk að vinna og því verður haldið áfram með það að leiðarljósi að vinna að símenntun félagsmanna á þeirra forsendum og með þeirra þarfir í huga.

Matvælin verða að lækka

Um mitt sumar skilaði svokölluð matvælaverðsnefnd af sér niðurstöðum. Það sem vakti sérstaka athygli var að Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri lagði skýrsluna fram í sínu nafni en að öðru leyti varð ekki niðurstaða í nefndinni.

Í skýrslunni kemur fram að með ákveðnum aðgerðum er hægt að ná matvælaverði niður í sama verð og á hinum Norðurlöndunum.

Meginniðurstaðan er að með því að fella niður tolla og innflutningshöft á búvörur megi lækka matvælaverð til heimilanna um u.þ.b. 16%. Þetta myndi leiða til lækkunar á kostnaði heimilanna um að meðaltali 82 þúsund krónur á ári.

Forystumenn bændasamtakanna höfnuðu öllum breytingum og tillögum til lausnar þessu brýna hagsmunamáli. Fulltrúi ASÍ í nefndinni lagði til að tekin yrðu ákveðin skref í lækkun verndartolla en stuðningi við landbúnaðinn yrði komið fyrir með öðrum og skilvirkari hætti, t.d. í formi beingreiðslna.

Ljóst er að það eru hagsmunir allra landsmanna að ná fram lækkun á matvælaverði og í leiðinni þarf að skapa svigrúm fyrir bændur og starfsfólk í störfum tengdum landbúnaði. Ef samtök launamanna ákveða að draga sig út úr umræðunni, þá er það engin lausn hvernig sem á málið er litið. Það verða þá aðrir sem taka ákvörðun með þeirri áhættu að minna tillit verði tekið til sjónarmiða samtaka launafólks.

Þessi biðstaða sem nú er komin upp er óásættanleg fyrir alla. Matvælaverð verður að lækka. Almenningur á kröfu á sambærilegu vöruverði og gerist á meginlandi Evrópu. Það er eina ásættanlega niðurstaðan.