Lesblindunámskeiðið

11. 09, 2006


Aftur í nám

– leið til árangurs gegn lesblindu

Á undarförnum árum hefur verið boðið upp á námsleið sem nefnist Aftur í nám sem er fyrir fólk með lesblindu eða lestrarvanda. Mjög mikilvægt skref hefur verið stigið fram á við með því að horfast í augu við að margir þurfa að fá aðstoð vegna lesblindu og hefur samfélagið allt tekið þátt í að sjá þetta sem verkefni sem þarf að vinna að.

Fræðslusjóðir Eflingar-stéttarfélags hafa ávallt styrkt sína félagsmenn til að sækja slík námskeið og átt gott samstarf við þá fræðsluaðila sem fremstir eru í að bjóða upp á lesblindunámskeið en þar er Mímir-símenntun að vinna frábært starf.

Nú í haust verða haldin lesblindunámskeið og er nú þegar fullt á einhver þeirra en það er lykilatriði að skrá sig og komast þannig í hóp þeirra sem geta fengið námskeið í vetur. Nú hefur fengist aukinn styrkur í þessi námskeið með auknu fjármagni til sí- og endurmenntunar fyrir félagsmenn innan ASÍ.

Fólk er hvatt til að leita til Mímis-símenntunar og skrá sig þar í síma 580 1800 til að komast á námskeið í vetur.

 

Umsögn nemanda

 

Aftur í nám

Bind miklar vonir við námskeiðið

segir Árni Garðar Jónsson

Mér var sagt frá því hvernig líf fólks hafði breyst mikið til batnaðar eftir að hafa verið á svona námskeiði. Þá ákvað ég að sækja um. Tíminn á námskeiðinu er búinn að vera mjög skemmtilegur. Við byrjuðum á sjálfstyrkingu og svo fór ég í einkatíma með Ron Davis ráðgjafa. Að því loknu tók við nám í íslensku og svo lærum við líka á tölvu. Ég bind miklar vonir við þetta námskeið.