Jákvætt fyrir eigendur séreignarsparnaðar

19. 01, 2007

 
Breyting á lögum

Jákvætt fyrir eigendur séreignarsparnaðar

Flestum er ljóst mikilvægi þess að spara til efri áranna.  Hver hefur ekki látið sig dreyma um að eiga náðuga tíma á eftirlaunaárunum?  Æ fleiri stefna líka að því að hætta að vinna fyrr til að sinna áhugamálum eða ferðast. En til að slíkir draumar geti orðið að veruleika þurfum við að búa í haginn fyrir okkur hvert og eitt og huga vel að lífeyrismálum og öðrum sparnaði á starfsævinni.

Lífeyrismálin eru hluti af fjármálum okkar alla starfsævina!

Lífeyrismálin eru stór hluti af fjármálum einstaklinga og því ættum við að gefa okkur tíma til að skoða þessi mál og kynna okkur réttindi okkar og möguleika til að auka þau með t.d. séreignarlífeyrissparnaði.   Séreignarlífeyrissparnaður er tækifæri sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Mótframlag launagreiðanda og hagstæðar skattareglur gera þennan sparnað að hagstæðasta sparnaði sem völ er á og mun í framtíðinni draga verulega úr þeim breytingum sem verða við starfslok, þeim breytingum sem verða við það að fara af fullum tekjum á vinnumarkaði.   Tækifærin liggja líka í því að geta tekið séreignina út á ákveðnum árafjölda eftir 60 ára aldur.

Hvernig er séreignarsparnaðurinn greiddur út?

Meginreglan er sú að rétthafi getur hafið úttekt á séreignarsparnaði sínum þegar hann hefur náð 60 ára aldri en þó ekki fyrr en 2 árum eftir fyrstu innborgun.  Innistæðan er greidd út með jöfnum greiðslum á árunum fram að 67 ára aldri.  Ef hins vegar innistæðan er undir ákveðnu lágmarki, sem í dag er um 750.000,- kr. er heimilt að dreifa útborguninni á skemmri tíma. Við 67 ára aldur er hægt að fá inneignina greidda út í einu lagi eða dreifa henni óháð upphæð inneignar.  Ákveðið samspil er milli tekna fólks og lífeyrisgreiðslna úr Tryggingastofnun. Því er í mörgum tilvikum heppilegast að taka sparnaðinn út fyrir 67 ára aldurinn. Þetta er þó mjög einstaklingsbundið og háð þeim tekjum/lífeyri sem hver og einn hefur eftir að 67 ára aldri er náð.

Þann 1. janúar 2007 tók gildi breyting á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra. Þar kemur fram sú breyting að lífeyrisþegar sem taka út séreignarsparnað sinn geta óskað eftir því hjá Tryggingastofnun ríkisins að dreifa áhrifum þessara tekna á allt að 10 ár og geta með því móti lágmarkað eða komið í veg fyrir að þessi sparnaður skerði lífeyrinn hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Lagabreytingin sem varð nú um áramótin kemur til móts við þá sem eru 67 ára og eldri og eiga inni séreignarsparnað. Í ljósi þessara breytinga hvetjum við sjóðfélaga sem komnir eru á lífeyri hjá Tryggingastofnun að kynna sér þessa leið og nýta sér þessa dreifingu hjá Tryggingastofnun ríkisins.