Sérstakt vinnustaðaeftirlit sett á laggirnar

19. 01, 2007

Sérstakt vinnustaðaeftirlit sett á laggirnar

Mikilvægt að herða á eftirliti

– segir Sigurður Bessason

Stjórn Eflingar hefur ákveðið að leggja aukna áherslu á eftirlit með vinnustöðum á kjarasamningssviði félagsins. Ákvörðunin er tekin með hliðsjón af því að samstarfi ASÍ félaganna um eftirlit með vinnustöðum er lokið fyrir nokkru. Sigurður Bessason, formaður Eflingar sagði í viðtali við Fréttablað Eflingar að það samstarf hefði sýnt að mikilvægt væri að félögin á höfuðborgarsvæðinu sameinuðust um slíkt eftirlit.
Við höfum lengi haft gott samband við fjölmarga vinnustaði, aðstoðum við kosningu trúnaðarmanna, kynnum fræðslustarfið okkar og höldum fundi á vinnustöðunum, sagði Sigurður.  Þetta verkefni kemur þar til viðbótar og við höfum skipað Ágúst Þorláksson, starfsmann Eflingar sem verkefnisstjóra í þetta mál. Verkefnið beinist m.a. að vinnustöðum þar sem ætla má að brot séu í gangi á kjarasamningum okkar eða lögum en það hefur komið í ljós að svo er á mörgum vinnustöðum þar sem félagsmenn okkar af erlendum uppruna starfa, sagði Sigurður.
Leitað verður samstarfs við önnur félög í Reykjavík sem mestra hagsmuna hafa að gæta en Efling hefur verið í samstarfi við Trésmiðafélag Reykjavíkur og áform er um samstarf við Matvís.
Meginmarkmiðið er að leitast við að koma reglulegu eftirliti á vinnustaði þar sem ætla má að brot séu í gangi á kjarasamningum og hafa meira frumkvæði að eftirliti með ferðum sérstaklega á vinnustaði þar sem starfsmenn af erlendum uppruna starfa og um leið að beita aðhaldi að stofnunum sem sinna málefnum útlendinga hér á landi.

Verkefni vinnustaðaeftirlits Eflingar-stéttarfélags

• Að eiga frumkvæði að heimsóknum á vinnustaði til að koma upplýsingum á framfæri um réttindi og skyldur launafólks og atvinnurekenda samkvæmt kjarasamningum og lögum. Að veita launafólki af erlendum uppruna upplýsingar um gildandi launa- og starfskjör í þeirri starfsgrein sem þeir vinna í.

• Að kanna hvort viðkomandi launafólk er að taka launakjör í samræmi við starfskjör og kjarasamninga sem almennt gilda á samningssviðinu.

• Að kanna hvort rétt er staðið  að atvinnuleyfum ef um þau er að ræða.

• Að leita eftir ráðningarsamningum erlends launafólks frá Vinnumálastofnun og eiga frumkvæði gagnvart Vinnumálastofnun að sækja þangað upplýsingar og vera einn af  tengiliðum Eflingar gagnvart stofnuninni.

• Að tryggja að þegar vitneskja eða grunur er um brot á kjarasamningum á vinnustöðum er fyrir hendi, þá fari þegar í stað vinna í gang til að tryggja stöðu viðkomandi starfsmanna.