Veruleg hækkun launa í umönnunarstörfum

17. 01, 2007

Niðurstöður úr nýlegri Gallupkönnun

Veruleg hækkun launa í umönnunarstörfum

Nýleg Gallup könnun staðfestir að laun í umönnunarstörfum hækkuðu verulega á síðasta ári.  Er það mjög
ánægjuleg niðurstaða og staðfestir að óánægjuraddir þessa hóps með kjör sín hafa loks náð eyrum
launagreiðenda þeirra. En fyrri Gallup kannanir höfðu áður staðfest að umönnunarhópurinn var lang ósáttastur
með sín kjör.
 

Meðaldagvinnulaun hafa hækkað að meðaltali um þrjátíu þúsund krónur

 Í nýlegri Gallup könnun kemur í ljós að meðaldagvinnulaun fyrir fullt starf í umönnun eru 156 þúsund kr. á
mánuði en í Gallup könnun frá því í mars 2005 voru meðaldagvinnulaunin 126 þúsund kr. á mánuði. 
Launahækkun hjá þessum hópi hefur því verið að meðaltali þrjátíu þúsund á liðlega einu ári eða 24%.  Þess
ber að geta að hér er átt við bæði þá sem starfa við umönnun barna sem og aldraða og fatlaða.
 

Launahækkanir bundnar í kjarasamning

Þær launahækkanir sem hafa smám saman verið að skila sér í umönnunarstörfin voru fyrst bundnar með
nýjum kjarasamningi við Reykjavíkurborg fyrir liðlega ári síðan, en einnig hafa þessar launahækkanir verið
festar í sessi með svokölluðum stofnanasamningum hjá umönnunarstofnunum sem tilheyra ríkisumhverfinu og
hefur því öryggisnetið verið tryggt þar enn frekar.
 
Má gera betur
156 þúsund kr. á mánuði í meðal­dagvinnulaun fyrir jafn erfið störf og umönnun er engin ofrausn enda segjast í
nýjustu Gallup könnun ennþá um 56% þessa hóps vera mjög eða frekar ósátt með sín laun á meðan þetta
hlutfall var 31% fyrir félagsmenn í heild sinni.  Í Gallup könnun 2005 höfðu hins vegar 74% þeirra sem starfa við
umönnun svarað því til að þeir væru mjög eða frekar ósáttir með sín laun sem staðfestir þann árangur sem
náðst hefur við að bæta kjör þessa hóps, en ljóst er að gera má enn betur.