Ný Gallup könnun á vegum Flóans

Ný Gallup könnun á vegum Flóans

Laun kvenna hækka minna en karla

Mikil samstaða kemur fram um hækkun lægstu launa í viðhorfskönnun Flóafélaganna, Eflingar, Hlífar og VSFK í Keflavík. Einnig kemur fram að mikill meirihluti félagsmanna leggur áherslu á kaupmátt launa í stað prósentuhækkunar. Þá er athyglisvert að konur leggja mun meiri áherslu á launahækkanir en karlar vilja styttingu vinnutímans. Þetta rímar vel við þá óánægju sem fram kemur hjá þeim félagsmönnum Eflingar sem starfa við ýmis umönnunarstörf og eru í miklum meirihluta konur.  Nokkrar niðurstöður könnunarinnar má sjá hér að neðan en könnunina sjálfa má finna á vef Eflingar.

Þrír af hverjum fjórum vilja áfram hækkun lægstu launa

Þegar félagsmenn voru spurðir hvort leggja ætti sérstaka áherslu á hækkun lægstu launa, þá voru ríflega 75% sammála þó að það þýði minni almenna hækkun. 

Tveir af hverjum þremur vilja aukinn kaupmátt í stað prósentuhækkunar

Spurt var hvort ætti að leggja áherslu á prósentuhækkun eða aukinn kaupmátt launa og þá svöruðu 65,6% að leggja ætti áherslu á aukinn kaupmátt.  Mestur munur var milli aldurshópa hvert svarið var en 78% þeirra sem voru 55 ára og eldri vildu frekar aukinn kaupmátt en einungis 51% þeirra sem voru 24 ára og yngri.

Vinnuvikan 50 stundir

Meðalvinnuvika félagsmanna í fullu starfi voru 50 klukkustundir á viku eða 53 hjá körlum og 44 hjá konum.  Þá var meðalfjöldi yfirvinnustunda hjá félagsmönnum í fullu starfi 11,5 klukkustundir eða 13,5 hjá körlum og 7 hjá konum.

Heildarlaun 294.000.- krónur

Heildarlaun hafa hækkað um 19,3% milli áranna 2006 og 2007 og eru nú að meðaltali 293.791 krónur.  Talsverður launamunur er milli kynja en karlar hafa nú að meðaltali 339 þúsund krónur og konur 226 þúsund krónur.

Dagvinnulaun um 200 þúsund

Dagvinnulaun hafa hækkað um 15% milli ára og eru nú að meðaltali 200.619 krónur. 
Séu laun greind eftir störfum er byggingageiri og mannvirkjagerð með hæstu launin en þar hækkuðu heildarlaun um 34% milli ára.  Mjög mismunandi er eftir hópum hve hækkunin er og var til að mynda engin hækkun á dagvinnulaunum í hótel-, veitinga- og á skyndibitastöðum.

Meira óskað eftir launahækkunum – færri fengu

Spurt var hvort viðkomandi hefði óskað eftir launahækkun á sl. 12 mánuðum.  Mun fleiri hafa óskað eftir launahækkunum nú en árið áður eða 38,2%.  Sé þetta skoðað eftir starfsgreinum kom í ljós að flestir sem höfðu óskað eftir launahækkun voru í störfum í hótelum og veitingahúsum.  Hlutfallslega færri nú en í fyrra fengu hins vegar launahækkun þegar þeir báðu um hana.  Þegar spurt var hvort viðkomandi væri ánægður með launabreytinguna, voru karlar mun ánægðari en konur. 
Einnig var spurt hvort viðkomandi væri sáttur eða ósáttur með launin.  Um 45% sögðust vera mjög eða frekar sáttir með laun sín en þegar þetta er greint eftir störfum þá er greinilegt að þeir sem starfa við umönnun eru lang ósáttastir með sín laun eða 75% segjast vera mjög eða frekar ósáttir með laun sín og nefna vanmat á störfum sem helstu ástæðu.

Launamunur kynjanna

Meðal fólks í fullu starfi eru konur að jafnaði með rúmlega 33% lægri heildarlaun en karlar.  Að teknu tilliti til aldurs, starfsstéttar, starfsaldurs og fjölda vinnustunda minnkar kynbundinn launamunur í 15,6%.
Konur eru að jafnaði með rúmlega 17% lægri grunnlaun en karlar.  Að teknu tilliti til aldurs, starfsaldurs og starfsstéttar er launamunurinn 12,6%.
Áhyggjuefni er að launabil milli karla og kvenna hefur aukist frá árinu 2006.  Þannig hækkuðu meðal heildarlaun kvenna úr 201 þúsund krónum í 226 þúsund krónur eða um 12,44% á meðan meðal heildarlaun karla hækkuðu úr 273 þúsund krónum í 339 þúsund krónur eða um 24,18%.  Þá er einnig sláandi munur á hækkun dagvinnulauna milli kynja en meðaltal dagvinnulauna kvenna hækkaði úr 168 þúsund kr. í 179 þúsund kr. eða um 6,4% og meðaltal dagvinnulauna karla hækkaði um 20,67% á sama tímabili og fór úr 179 þúsund krónur í 216 þúsund krónur. 

Mesta áherslan á launin

Þegar kom að helstu áhersluatriðum gagnvart atvinnurekendum í næstu kjarasamningum vildu langflestir leggja mesta áherslu á laun, þar á eftir styttingu vinnutíma, þá atvinnuöryggi og síðast starfsumhverfi.  Ívið fleiri leggja nú áherslu á launahækkanir en í könnuninni 2003 en mun færri á atvinnuöryggi.  Konur leggja mun meiri áherslu en karlar á launahækkun og karlar leggja meiri áherslu á styttingu vinnutímans.  Yngsti aldurshópurinn leggur meiri áherslu á starfsumhverfi en aðrir aldurshópar.

Skattar og vextir efstir gagnvart stjórnvöldum

Af áhersluatriðum í næstu samningum gagnvart stjórnvöldum voru skattamálin í fyrsta sæti, þar á eftir komu vaxtamál, þá verðlagsmál og síðast húsnæðismál.  Séu niðurstöðurnar bornar saman við eldri könnun leggja færri núna áherslu á húsnæðismál en 2003.  Þó kemur fram að þeir sem búa í leiguhúsnæði og foreldrahúsum leggja mesta áherslu á húsnæðismál á eftir skattamálum.  Athyglisvert er að sjá að sá hópur í úrtakinu sem býr í leiguhúsnæði eða í foreldrahúsum er um 25% sem hlýtur að teljast nokkuð hátt hlutfall.

Helstu forsendur könnunarinnar eru eftirfarandi:

Um er að ræða launa- og viðhorfskönnun sem nær til félagsmanna Eflingar-stéttarfélags, Vlf. Hlífar í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis.

Úrtakið var 2000 félagsmenn sem skiptast hlutfallslega milli stéttarfélaganna en miðað er við starfsmenn sem hafa verið eitt ár eða lengur í starfi og eru orðnir 16 ára.

Félagsmenn sem starfa hjá Reykjavíkurborg eða öðrum sveitarfélögum voru ekki með í úrtakinu að þessu sinni, enda beindist viðhorfskönnunin til þeirra félagsmanna sem eru með lausa samninga í kringum næstu áramót.

Könnunin fór fram í gegnum síma en einnig var hægt að svara á netinu.

Svarhlutfall var 44.9% en alls voru svarendur 739 sem eru ívið fleiri en árið áður.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Könnunin í PDF formati