Flóabandalagið kynnti SA í dag kröfugerð

28. 11, 2007

Flóabandalagið  kynnti  SA í dag kröfugerð

Veruleg hækkun lágmarkstekna og öll taxtalaun hækki í krónutölu
Aðgerðir stjórnvalda í skattamálum forsendu samninga

-segir formaður samninganefndar, Sigurður Bessason

Megináhersla Flóafélaganna er lögð á hækkun lægstu launa og leiðréttingu til þeirra sem ekki hafa fengið launabreytingar í samræmi við launaþróun á síðustu misserum. Þessu markmiði telja Flóafélögin best að ná með föstum krónutöluhækkunum á taxtalaun árin 2008 og 2009. Þá er gert ráð fyrir að lágmarkstekjur hækki umtalsvert bæði ár samningsins. Félögin vilja með forsenduákvæðum tryggja félagsmenn sína gegn verðbólgu og launahækkunum annarra hópa.  Þá gera þau ráð fyrir því að stjórnvöld komi að nauðsynlegum breytingum í velferðar- og skattamálum til að tryggja árangur samningsins.

Fram hefur komið að félögin innan Flóans hafa lagt megináherslu á hækkun lægstu launa og að tryggja sem best leiðréttingu til þeirra sem degist hafa aftur úr í launaþróun á síðasta samningstímabili.  Þessu markmiði telja félögin best að ná með 20.000.- króna hækkun á öll taxtalaun frá og með 1. janúar 2008 og síðan 15.000.- króna hækkun á taxta frá ársbyrjun 2009. Þá eru félögin jafnframt tilbúin að skoða launaþróunartryggingu með Samtökum atvinnulífsins sem felur í sér að taka ákveðið viðmið aftur í tímann til síðustu missera og bæta þeim sem eru undir ákveðnum viðmiðunum það sem á vantar. Almenn lágmarkshækkun launa yrði 4% samkvæmt þeim kröfum sem nú liggja fyrir.

Samkvæmt þeim hugmyndum sem ræddar hafa verið í félögum Flóabandalagsins er gert ráð fyrir að dagvinnutekjutrygging fyrir fullt starf  fari 1. janúar 2008 í 155.000.- krónur sem er 24% hækkun á þessum launalið samningsins. Hún hækkar síðan aftur 1. janúar 2009  í 165.000.- krónur.

Gert er ráð fyrir tveggja ára samningi og samkvæmt þeim kröfum sem lagðar hafa verið fram og er ein af forsendum þessa samnings er að stjórnvöld  komi að viðræðum með framlag  í velferðar- og skattamálum

Með meginkröfum sem kynntar voru í dag voru síðan ýmis önnur miklvæg mál sem sjá má hér á eftir en auk þess lögðu félögin fram helstu kröfur í sérkjarasamningum sem fylgja aðalkjarasamningi félaganna.

Meginkröfur:

1. Lögð verði megináhersla á hækkun lægstu launa.  Tryggja þarf umframleiðréttingu til þeirra hópa sem dregist hafa aftur úr á yfirstandandi samningstímabili.
2. Forsenduákvæði. Forsenduákvæði tryggi samninginn gagnvart verðbólgu og launahækkunum annarra.
3. Samningstími. 24 mánaða samningur.
4. Launahækkanir á samningstímanum:

Krónutöluhækkun á taxtalaun:

2008: 20.000 kr.
2009: 15.000 kr.

Almenn launahækkun:

2008: 4%
2009: 4%

Launaþróunartrygging verði tekin til skoðunar.

5. Lágmarkstekjur (dagvinnutekjutrygging) fyrir fullt starf taki eftirfarandi hækkunum:
2008: Fari í 155.000 kr.
2009: Fari í 165.000 kr.

Aðgerðir stjórnvalda.  Ein af forsendum þessa samnings er sú að stjórnvöld  komi að viðræðum með framlag í velferðar- og skattamálum.

Aðrar kröfur:

6. Launamunur kynjanna. Áhersla verði lögð á að útrýma launamun kynjanna.  Í stað bókunar frá 1989 um aukna hlutdeild kvenna í stjórnun o.fl. komi ný bókun:  “Annað hvert ár fari samningsaðilar í sameiginlega skoðun á þróun launamunar karla og kvenna, hvað skýri hann og kanni leiðir til að draga úr honum.”
Farið verði í sameiginlega vinnu í fræðslumálum á sviði jafnréttismála.
Að öðru leyti er vísað í sameiginlegar kröfur með ASÍ.

7. Stytting vinnutímans.  Unnið skal að því að stytta heildarvinnutímann.  Nauðsyn á bættu gagnasafni frá Hagstofu til að varpa frekari ljósi á þróun og mismunandi vinnutíma í einstökum störfum.

8. Veikinda-, slysa, lífeyris- og örorkuréttindi.  Bæta þarf veikinda-, slysa-, lífeyris- og örorkuréttindi á almennum markaði.  Ákvæði um slysatryggingar verði teknar til heildarendurskoðunar og tryggingaupphæðir verði stórhækkaðar til samræmis við það sem best gerist í samningum hér á landi.

9. Aukin orlofsréttindi. Ávinnslurétti verði hraðað og réttindin aukin.

10. Menntamál.  Tryggja ber stöðu starfsmenntasjóðanna með hækkun á framlagi til starfsmenntasjóða til að standa undir auknum kröfum um menntun launafólks.

11. Hótel- og veitingahús.  Samningur hótel- og veitingageira verði felldur að almennum samningi þar sem ákvæði eru eins.

12. Vaktavinnuálag. 

Vaktavinnuálag verði að lágmarki:
35% kl. 17:00-24:00 mánudaga til föstudaga 
55% kl. 00:00-08:00 mánudaga til föstudaga  svo og um helgar

13. Framangreindar kröfur gildi um öll aðalkjarasamningssvið Eflingar, Hlífar, VSFK og Boðans annars vegar og SA hins vegar.

Sameiginlegar kröfur með ASÍ:

Staða efnahagsmála og forsendur
Veikinda-, slysa- og örorkubótamál auk slysatrygginga
Launamunur kynjanna
Staða trúnaðarmannsins
Staða virkjanasamningsins
Ýmis sameiginleg mál með landssamböndum ASÍ

Sameiginlegar áherslur gagnvart stjórnvöldum

Áherslur í velferðarmálum
     Húsnæðismál
     Málefni barna
     Lágmarksviðmiðun bótafjárhæða
Áherslur í skattamálum