Fræðslufundur félagsliða nóv07

13. 11, 2007

Fræðslufundur félagsliða

Fullt út úr dyrum

Fullt var út úr dyrum á fræðslufundi félagsliða sem haldinn var á mánudagskvöldið 12. nóvember síðast liðinn.  Á fundinn kom Björk Vilhelmsdóttir, nýr formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.  Þá  flutti Sigurður Gunnsteinsson, ráðgjafi hjá SÁÁ erindi um áfengissýki á síðari hluta ævinnar.  Fanney Friðriksdóttir, aðaltrúnaðarmaður Eflingar hjá Reykjavíkurborg fór yfir störf faghóps félagsliða á undanförnum mánuðum.  Einnig fór Sigurrós Kristinsdóttir, 1. varaformaður Eflingar yfir framtíðarsýn umönnunarstarfa.

Björk Vilhelmsdóttir, nýr formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar fór yfir stefnu velferðarsviðs og hlutverki félagsliða innan þess hjá borginni.  Björk nefndi að hún væri sérstaklega ánægð með að koma á fundinn og kom fram að hún ætti starfsreynslu að baki við störf í heimaþjónustu.

Björk hvatti fundargesti til þess að láta í sér heyra, því að félagsliðar eru þeir sem vita um hvað þjónustan snýst og hvað þurfi til þess bæta hana.

Starf félagsliða býður upp á fjölbreytt verkefni og hjálpar fólki til þess að búa sem lengst heima, þó svo að það verði aldrei horft fram hjá mikilvægi hjúkrunarheimila.

Björk sagði að meta þurfi umönnunarstörf sérstaklega og þar skipa félagsliðar stóran sess.  Þeir sem einungis vinna dagvinnu í umönnunarstörfum geta ekki lifað af launum sínum í dag og því ætli Reykjavíkurborg áfram að skoða leiðir til að bæta kjör þessa hóps.

Verið er að sameina þjónustu hjá ríki og sveitarfélögum.  Störfin verða skipulögð á einni hendi og því auðveldara að stýra verkefnum betur þannig að störf félagsliða verði frekar miðuð að félagslegri þjónustu en minna að þrifum.  Með nýrri gjaldskrá er stefnt að aðskilnaði þrifa og umönnunarþjónustu en þetta er enn í vinnslu í starfshóp á vegum borgarinnar.  Þá er gert ráð fyrir að félagsliðar verði starfandi í nýrri dagdeild fyrir heilabilaða sem verður í Blesugrófinni.

Flóknari vandi hjá eldra fólki

Í erindi Sigurðar Gunnsteinssonar, ráðgjafa hjá SÁA kom margt athyglisvert fram.

Hann greindi frá því að á síðustu árum hefði eldri einstaklingum fjölgað í meðferð, bæði fjöldi innlagna og fjöldi nýkomufólks.  Neyslumynstur hefur breyst og er dagdrykkja orðin mun algengari.  Vandinn er flóknari hjá þeim eldri.  Afeitrunin er erfiðari í þessum hópi, þeir þurfa langan tíma og öðruvísi lyfjagjöf og eftirlit.  Einnig nefndi Sigurður að neysla lyfja með áfengi væri stórt vandamál og að mikið væri um beinbrot sem bein afleiðing af neyslu áfengis og lyfja.

Eldra fólk á mjög erfitt með að koma í meðferð, er ekki tilbúið og telur að það sé orðið „of gamalt“.  Andleg heilsa er oft á tíðum í molum hjá þessum einstaklingum.  Þeir hafa einangrast frá fjölskyldunni, börnum og barnabörnum.  Þekkingarleysi ástvina er einnig algengt og mikið um afneitun.

Boðið er upp á sérstaka kvennameðferð sem hefur skilað góðum árangri.  Nú býðst körlum sem náð hafa 55 ára aldri einnig sérmeðferð og er boðið upp á framhaldsmeðferð á Vík á Kjalarnesi í 4 vikur í beinu framhaldi.

Mikilvægt starf félagsliða

Fanney Friðriksdóttir sagði að faghópur félagsliða hafi verið duglegur undanfarna mánuði við að minna á og auka virðingu fyrir félagsliðastarfinu.   Landslæknisembættið var heimsótt í apríl þar sem Anna Björg Aradóttir yfirhjúkrunarfræðingur og sviðsstjóri gæða- og lýðheilsusviðs tók á móti hópnum.  Þetta var mjög góður fundur, þar sem  aðilar voru sammála um mikilvægi félagsliða fyrir þá sem vilja búa sem lengst heima og stuðli að auknum lífsgæðum þessara einstaklinga.

Þá var farið af stað með framhaldsnám í alzheimer fyrir félagsliða í samstarfi við Hönnu Láru Steinsson.  Mikil ásókn hefur verið í námið og komust færri að en vildu. 

Faghópurinn stefnir að uppbyggingu frekara framhaldsnáms fyrir félagsliða og kom fram hjá fundargestum að áhugi væri fyrir námi sem miðað væri fyrir þjónustu með geðfötluðum.

Í framhaldi af  fundi sem faghópurinn fór til Heilbrigðisráðuneytisins í október síðast liðnum var sent formlegt bréf til ráðuneytisins þar sem óskað var eftir löggildingu fyrir starf félagasliða.

Sigurrós Kristinsdóttir greindi frá því að um 200 manns hefðu lokið félagsliðanámi á vegum Eflingar og að nú væru um 80 manns í náminu.  Mun fleiri eru nú frá hjúkrunarheimilum í náminu, en áður höfðu starfsmenn frá Reykjavíkurborg verið í meirihluta.

Sigurrós fór yfir þann möguleika hvort stofna ætti sér faghóp fyrir umönnunarstörf þar sem að félagsliðar væru innan þess hóps.   Hún hvatti fundargesti til þess að velta þessum möguleika fyrir sér.  Þá var einnig farið yfir hönnun  félagsliðamerkis.

Að lokum hvatti Sigurrós alla til að leggjast á eitt að skapa hefðbundnum umönnunarstörf þann virðingarsess sem þau eiga sannarlega skilið.