Sorphirðan til einkaaðila

21. 08, 2008

Sorphirðan til einkaaðila?
Óvönduð vinnubrögð vekja ugg

-eftir Sigurð Bessason, formann Eflingar

Þau vinnubrögð sem opinberast í málflutningi Jórunnar Frímannsdóttur um sorphirðuna í borginni vekja ugg. Þvert á það sem hún heldur fram í pistli í 24 Stundum  er saga sorphirðu borgarinnar einmitt saga mikillar hagræðingar og umfangsmikilla  breytingum í gegnum tíðina. Stöðugt hefur fækkað bílum sem eru notuð til þessara verkefna og í dag sinna miklu færri starfsmenn sorphirðu Reykvíkinga en áður þrátt fyrir ört stækkandi borg og sameiningu við önnur sveitarfélög. Þetta hefur gerst með hagræðingu og betri tækjabúnaði. Stöðugt hefur verið leitað leiða til þess að gera þjónustuna skilvirkari gagnvart borgarbúum sem sannanlega hafa kunnað að meta þessi störf og valið hvað eftir annað sorphirðu Reykjavíkurborgar sem eina af þeim stofnunum sem veitt hafa hvað bestu þjónustu. Jórunn hefur valið að gera lítið eða ekkert úr þessari þróun og vanvirða þannig störf stjórnenda og starfsmanna. Allt á að verða betra ef einkaaðilar fá að komast að kjötkötlum borgarinnar.

Unnið að einkavæðingu leynt og ljóst
Það er ljóst að núverandi borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðismanna hefur unnið að því allt þetta kjörtímabil að bjóða þessa þjónustu út. Þeir hafa kallað eftir upplýsingum innan úr borgarkerfinu til staðfestingar á því að kostnaður Reykvíkinga sé meiri á hverja tunnu en kostnaður annarra sveitarfélaga. Í hverju sá samanburður er fólginn fylgir ekki með. Er verið að bera saman saman þjónustustig með svörtum og grænum tunnum eins og Reykvíkingar njóta. Það er mér til efs að svo sé.

Rangar fullyrðingar Jórunnar
Nú er rætt um að bjóða út 20% af sorphirðunni og það vekur ugg um þau óvönduðu vinnubrögð sem viðhöfð eru í þessum málum þegar lesinn er pistill borgarfulltrúans Jórunnar Frímannsdóttur  í blaðinu 24 Stundir þar sem hún lýsir áliti sínu á sorphirðu borgarinnar.  Hún fullyrðir að upptaka  á verkefninu Græna tunnan hafi verið tekin upp frá einkaaðilum. Það er einfaldlega rangt. Þetta verkefni er eitt margra verkefna sem hefur verið unnið af starfsmönnum borgarinnar. Það má skilja borgarfulltrúann svo að engin þróun eða hugsun til breytinga bærist innan borgarkerfisins sem er merkilegt þar sem flokkurinn hennar stýrði þessum málaflokki um áratugaskeið. Síðan vísar hún til reynslu sinnar frá 17 ára dvöl úti í Þýskalandi þar sem byrjað var að þrískipta ruslafötum í ruslaskápnum. Þá lýsir hún því hvernig við þurfum að verða meðvitaðri um þessi mál og taka upp svipað kerfi og þar er.

Borgarfulltrúinn gerir kröfu um niðurskurð á kostnaði á sama tíma og hún gerir kröfu um aukna þjónustu. Það er ekki heil brú í þessum málflutningi Jórunnar og ljóst að hún hefur ekki kynnt sér málið að neinu marki.  Skyldi hún hafa spurt um hvað þessi þjónusta kostaði úti í Þýskalandi. Mig grunar  að svo sé ekki enda sátt við þjónustana.

Strandar á stjórnmálamönnum
Breytingar á vinnufyrirkomulagi eru til endurskoðunar árlega samkvæmt samningum þar um. Það hafa komið fram allskonar tillögur frá starfsmönnum og stjórnendum borgarinnar á liðnum árum. Á hverju hefur þá málið strandað? Jú, á stjórnmálmönnunum sem stýra þessum málaflokki sem horfa í hverja krónu varðandi þjónustu.

Reykvíkingar vilja góða þjónustu. Þeir treysta borgarstarfsmönnum til þess að sinna þessum verkum af alúð og hafa verið tilbúnir að greiða fyrir þjónustuna.  Það er mergurinn málsins. Væri nú ekki rétt af  starfandi meirihluta að hverfa frá villu síns vegar  og leita eftir samstarfi við starfsmenn borgarinnar og stéttarfélög þeirra til að endurheimta það traust sem borgarfulltrúar hafa glatað vegna vondra vinnubragða?