Landspítalinn grípur til uppsagna

     Landspítalinn grípur til uppsagna

Vekur ugg meðal starfsmanna

– segir formaður Eflingar

Þessi ákvörðun Landspítalans vekur fyrst og fremst ugg meðal starfsmanna sjúkrahússins í ræstingu, segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar um þá ákvörðun sjúkrahússins að segja upp öllum starfsmönnum í ræstingu sem starfa í Fossvogi þannig að uppsagnir taki gildi frá 1.maí nk. Það er ekki verið að leggja störfin niður heldur á að bjóða þau út á Evrópska efnahagssvæðinu með hagræðingu í huga. Skilaboðin eru alveg skýr, segir Sigurður. Það er ekkert heilagt í þessu efni, hvorki mikilvæg þrif á LSH eða önnur störf  þar. Fram kom á fundi með starfsmönnum að þeir eru óánægðir með að ríkisstofnun skuli ganga á undan með uppsögnum nauðsynlegra starfa í því atvinnuástandi sem nú ríkir.

Forsvarsmenn Landspítalans á Tækni og eignasviði LSH þeir Björn Jónsson og Valur Sveinbjörnsson héldu fund með starfsmönnum í ræstingu sem vinna á Borgarspítalanum  þar sem tilkynnt var um að uppsagnir 30 starfsmanna sem eru félagsmenn Eflingar tækju gildi frá og með 1.maí 2009. Á fundinum var starfsmönnum tilkynnt um að hugsanlega kæmi til endurráðningar en það byggðist fyrst og fremst á ákvörðun þess fyrirtækis sem fengi verkið í framhaldi af útboði.

Ljóst er að Landspítalinn fer í þessar uppsagnir fyrst og fremst í hagræðingarskyni en spítalinn hefur ákveðið að setja þessi störf í útboð á Evrópska efnahagssvæðinu. Sigurður Bessason, formaður Eflingar segir það dapurlegt á þessum tímum að fyrirtæki sem er hefðbundið ríkisfyrirtæki skuli ríða á vaðið með þessum hætti. Það er ekki verið að leggja niður störfin af heldur skapa ótta meðal starfsmanna spítalans. Ekkert er heilagt í þessum málum, segir hann.

Flestir starfsmennirnir eru erlendir þar á meðal frá Póllandi, Portúgal, Spáni og fleiri löndum. Þá eru nokkrir Íslendingar í hópnum.  Af  hálfu LSH hefur það komið fram að spítalinn mun leitast við að þessi hópur fái forgang í þau störf sem losna annars staðar á LSH svo sem í býtibúri, auk þess sem mælst er til þess að nýja fyrirtækið bjóði þessum starfsmönnum áfram vinnu.