þjóð gegn þunglyndi

     Efling styrkir

Þjóð gegn þunglyndi

Við vitum að þessu fé er vel varið til verkefnisins „þjóðar gegn þunglyndi“  sagði Sigurrós Kristinsdóttir, varaformaður Eflingar þegar hún afhenti Matthíasi Halldórssyni, landlækni einnar milljón króna framlag félagsins á jólafundi trúnaðarráðs Eflingar.  Matthías sagði að þunglyndið væri erfitt viðfangs og oft fylgifiskur alvarlegra sjúkdóma. 

Sigurrós sagði að meginmarkmið verkefnisins væri að draga úr þjáningum vegna þunglyndis og draga úr öðrum beinum og óbeinum afleiðingum sjúkdómsins svo sem ótímabærum dauðsföllum. Með upplýsinga- og kynningarstarfi á næstu árum verður sjónum beint að þunglyndi, sem er stærsti áhættuþáttur  gagnvart alvarlegum andlegum sjúkdómum.  Stjórn  Sjúkrasjóðs og stjórnar Eflingar hefur skoðað verkefnið og telur að með því sé stórt skref stigið til að efla vitund almennings og þeirra aðila sem fást við andlega sjúkdóma. Mikið mæðir á sjúkrasjóðum Eflingar vegna veikinda af þessu tagi og er mikilvægt að styðja allt starf að upplýsingum og kynningu um þetta efni svo ná megi betri árangri  við þetta mikilvæga viðfangsefni í heilbrigðismálum.

Matthías Halldórsson sagði að þunglyndið væri erfitt viðfangs og oft fylgifiskur alvarlegra sjúkdóma og gæti endað illa, jafnvel með sjálfsvígum. Verkefnið hefði byrjað fyrir mörgum árum og nú beindist það að börnum sem ættu þunglynda foreldra. Ástandið eins og það er núna í þjóðfélaginu býður upp á meiri hættu af völdum þunglyndis. Mikilvægt væri að gera sér grein fyrir tengslanna á milli atvinnuleysis og heilsuleysis. Fólk yrði að geta átt innihaldsríkt  líf í atvinnuleysinu. Öflugt félagslíf  væri einmitt til þess fallið að draga úr tjóninu, sem óhjákvæmilega yrði í alvarlegri  kreppu sem nú ríður yfir okkur.