Varnarsigur fyrir velferð

25. 06, 2009

    Sátt sem stefnir að stöðugleika

Varnarsigur fyrir velferð

– Ný sókn í atvinnumálum

Stöðugleikasáttmáli um endurreisn íslensks efnahagslífs var í dag undirritaður milli ríkistjórnarinnar, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Samhliða gerð sáttmálans hafa aðilar vinnumarkaðarins sameinast um að eyða óvissu á vinnumarkaði með því að ljúka gerð kjarasamninga sem gilda til nóvemberloka árið 2010, þar sem áhersla er lögð á að styrkja stöðu þeirra tekjulægstu.

Sáttmálinn skapar skilyrði til þess að byggja upp efnahagslífið að nýju, fjölga störfum og leggja grunn að bættum lífskjörum til framtíðar. Í þeim óhjákvæmilegu aðhaldsaðgerðum sem framundan eru hjá hinu opinbera eru aðilar sammála um að verja undirstöður velferðarkerfisins, standa vörð um menntakerfið og verja störf eins og aðstæður frekast leyfa.

Markmiðið sáttmálans er að í árslok 2010 hafi tekist að ná verðbólgu niður fyrir 2,5%, minnka halla hins opinbera, lækka vexti og styrkja gengi krónunnar. Til þess að eyða óvissu hafa aðilar almenna vinnumarkaðarins lokið gerð kjarasamninga sem gilda til nóvemberloka 2010 og miða að því að tryggja stöðu þeirra tekjulægstu.  Samningsaðilar á opinberum vinnumarkaði munu eins fljótt og auðið er ganga frá kjarasamningum sem byggja á stöðugleikasáttmálanum.