Uppsagnir á Landspítalanum

Uppsagnir á Landspítalanum

Enn vegið að þeim lægstlaunuðu

Nú í annað sinn á skömmum tíma er Landspítali Háskólasjúkrahús að bjóða út rekstrareiningu sem kemur nær einvörðungu niður á þeim starfsmönnum sem eru á lægstu laununum. 
Í þetta sinn er verið að bjóða út mötuneyti starfsmanna en fyrir stuttu síðan bauð spítalinn út ræstingar í Fossvogi.
Ljóst er að í báðum þessum tilvikum var um störf að ræða sem áfram þarf að sinna og því eini tilgangurinn að ná fram rekstarhagræðingu með því að lækka laun og réttindi þess hóps sem sinna þessum störfum.
Efling-stéttarfélag átelur Landspítala Háskólasjúkrahús fyrir að fara þannig á skjön við réttindi starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum og hvetur spítalann til þess að segja ekki upp starfsmönnum spítalans, sérstaklega með tilliti til aðstæðna á vinnumarkaðnum. Félagið telur að með þessari ákvörðun sé verið að senda hóp starfsmanna beint á atvinnuleysisskrá.

Efling-stéttarfélag skorar hér með stjórn Landspítalans að falla frá ákvörðun sinni um að segja upp starfsfólki í mötuneyti Landspítalans.