Félagsmönnum fækkar lítið

26. 08, 2009

Félagsmönnum Eflingar

Fækkar lítið í kreppunni

Körlum fækkar á atvinnuleysisskrá en konum fjölgar lítillega

Þegar við skoðum heildarfjölda félagsmanna Eflingar um þessar mundir þá kemur á óvart að þeim hefur fram að þessu fækkað minna en gert hafði verið ráð fyrir eftir bankahrunið í október 2008. Á síðasta ári fór fjöldi byggingafyrirtækja í þrot og fækkaði starfsmönnum mikið í greininni. En þegar félagsmannafjöldi Eflingar er skoðaður aftur í tímann kemur í ljós að hann er ennþá yfir 20 þúsund manns sem er svipað og var fyrir uppsveifluna 2005-2006.  Fjölgun starfsmanna í byggingariðnaði og fleiri greinum varð til þess að heildarfélagsmannafjöldi fór á tímabili yfir 24.000 manns.  Það kemur því ekki á óvart að mesta fækkunin var í byggingageiranum en hins vegar kemur hröð fækkun í hótel- og veitingageira meira á óvart.  Þá hefur stöðug fjölgun í ýmsum þjónustugreinum vegið fækkun í öðrum greinum upp.

Erlent vinnuafl var komið yfir 40% á síðasta ári þegar það fór hæst en með fækkuninni er erlent vinnuafl nú um 36% af félagsmönnum okkar og telja nú um 7.000 manns en voru komnir yfir 10.000 um mitt árið í fyrra.

Félagsmönnum Eflingar sem skráðir eru hjá Vinnumálastofnun þ.e. þeir sem eru skráðir atvinnulausir  hefur fækkað nú milli mánaða. Þeir eru nú um 2250 en voru um 2500 manns í apríl og maí.

Körlum á atvinnuleysisskrá í Eflingu hefur fækkað frá apríl til júlí úr 1830 í 1550 manns og eru nú um 70% af hópnum en konum hefur á sama tímabili fjölgað úr 630 í 690 manns.

Þeir sem heyra undir byggingageirann hefur fækkað á atvinnuleysisskrá og eru nú um 500 manns en voru yfir 700 manns í apríl. Þeir komu úr hótel- og veitingageiranum eru um 200 manns og stendur sú tala nokkurn veginn í stað milli mánaða sem þýðir að hlutfallslega hefur þeim fjölgað aðeins sem eru án atvinnu í þeirri grein.
Þá vekur athygli að á atvinnuleysisskrá eru meira en 100 manns úr umönnunarstörfum  en voru 174 í apríl.

Af þeim sem eru á atvinnuleysisskrá hjá Eflingu eru um 56% Íslendingar og 26% Pólverjar.