Matvælanám

Nýtt nám fyrir starfsfólk í matvælavinnslu!

Tilraunakennsla á næsta leyti

Síðustu mánuði hefur Starfsafl leitt vinnu við undirbúning að nýju námi í matvælavinnslu í samstarfi við Rannsóknaþjónustuna Sýni ehf og  Eflingu stéttarfélag.  Myndaður hefur verið vinnuhópur sem í eiga sæti, auk Eflingar, Starfsafls og Sýni ehf, fulltrúar Matvælastofnunar, Landsmenntar og Fræðslumiðstöðar atvinnulífsins.  Byggt er á námskeiðum og námsefni frá Rannsóknaþjónustunni Sýni sem hefur verið leiðandi í námskeiðahaldi fyrir starfsfólk í matvælaiðnaði.

Starfsmenn Sýnis hafa að undanförnu verið að vinna að drögum að námskrá og er það gert í samráði og samvinnu við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og undirbúningshópinn.  Starfsmenn Sýnis hafa mikla reynslu á þessu sviði, ekki síst með sveigjanlegri kennslu sem fellur að vinnsluferlum fyrirtækja.  Ætlunin er að bjóða upp á 45 kennslustunda grunnnám, dreift yfir lengra tímabil, ætlað starfsfólki í matvælavinnslu, að viðbættum 15 kennslustunda sérhæfðu námi sem fer eftir fagsviði starfsmanna.  Sem dæmi námsgreinar í grunnnáminu má nefna matvælaeftirlit, matvælavinnslu, örveruvarnir og innra eftirlit.  Sérhæft 15 stunda nám fylgir svo í kjölfar grunnnáms þar sem farið verður í atriði sem eru bundin hverri grein.  Til dæmis má nefna greinar eins og brauð- og kökugerð, mjólkurvinnslu, fiskvinnslu, kjötvinnslu, korn- og fóðurvinnslu og fleiri greinar. 

Sem fyrr segir er námskráin í vinnslu en vonir standa til að fara af stað með tilraunakennslu fljótlega sem yrði í höndum Rannsóknaþjónustunnar Sýnis.  Þeir lærdómar sem fást við tilraunakennsluna verða síðan nýttir til að gera lokaútgáfu námskrárinnar sem yrði undir yfirumsjón Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.