kaffiboð á broadway

 

Gleðin ríkti á Broadway

Gleðin ríkti á Broadway sunnudaginn 7. mars s.l. þegar rúmlega 900 eldri Eflingarfélagar og gestir þeirra mættu í hið árlega kaffisamsæti. Eins og jafnan áður voru fagnaðarfundir með gömlum vinnufélögum, frændfólki og vinum. Þetta var í tíunda sinn sem samsætið er haldið undir merkjum Eflingar.

Eins og fram kom í máli Sigurðar Bessasonar kom þessi hefð inn í Eflingu frá Iðju félagi verksmiðjufólks við sameiningu félaganna um síðustu aldamót. En Iðja hafði haldið svona kaffisamsæti fyrir sína eldri félaga í áratugi. Að þessu tilefni flutti Guðmundur Þ Jónsson ávarp. Guðmundur hefur haft veg og vanda af þessum samkomum. Nú er hann að láta af störfum hjá félaginu og þakkaði því samfylgdina í ávarpi sínu ásamt því að rifja upp gamla tíma og hvatti einnig unga fólkið í félaginu til dáða.

Eftir að Guðmundur hafði lokið ávarpi sínu risu gestir úr sætum sínum og þökkuðu honum með lófataki.

Skemmtiatriðin voru vönduð eins og jafnan áður. Egill Ólafsson tók nokkur lög en við píanóið var Jónas Þórir en með gamanmál fór Hjálmar Hjálmarsson. Sælusveitin spilaði eins og undanfarin ár og margir skelltu sér á dansgólfið. Allir skemmtikraftarnir fengu góðar viðtökur og skemmti fólk sér hið besta. Þjónusta og veitingar af hálfu hússins var eins og best verður á kosið.