Starfsmenn Loftorku nýta tímann til heilsueflingar

25. 03, 2010

Starfsmenn Loftorku nýta tímann til heilsueflingar

Upp úr áramótum varð ljóst að verkefnaskortur yrði hjá Loftorku í Reykjavík eftir áramót. Forsvarsmenn fyrirtækisins ákváðu í samráði við starfsmenn að nýta sér vinnumarkaðsúrræði og minnka starfshlutfall í 50% frekar en að beita uppsögnum. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel og núna vinna menn aðra hvora viku frá mánudegi til föstudags. Síðan eru þeir á atvinnuleysisbótum hina vikuna. Þegar skammt var liðið á þetta fyrirkomulag fóru menn að velta fyrir sér hvort ekki væri hægt að nýta tímann til uppbyggilegra verka frekar en að sitja heima. Umræðan varð til þess að óskað var eftir fundi með fulltrúum Eflingar og Starfsafls til að ræða málið. Eftir fjörugar umræður var ákveðið að bjóða uppá námskeið um vistakstur og heilsueflingu.

Tveir hópar hafa lokið þátttöku á námskeiðum og nemendur sem við hittum á heilsueflingarnámskeiði voru mjög ánægðir með námsefnið sem fjallaði m.a. um heilsueflingu með góðu mataræði og líkamsrækt. Þeir voru líka sammála um að matargerðin sem kennd var á námskeiðinu ætti eftir að spara þeim mikil útgjöld í framtíðinni.