Við viljum vinnu

11. 05, 2010

Við viljum vinnu

Við sem búum á Íslandi gerum okkur grein fyrir því að allt er breytingum háð. Við höfum öll fylgst með þeim náttúruhamförum sem að eiga sér stað undir Eyjafjöllum. Íslendingar vita að  þetta svæði er nánast allt virkt eldfjallasvæði með Eyjafjallajökul, Kötlu og Grímsvötnum  í Vatnajökli í aðalhlutverkum. Við fyllumst aðdáun á mikilfengleik náttúrunnar en verðum um leið meðvitaðri um ógnir eldgosanna. Viðbrögð fólksins sem á allt sitt undir náttúrunni eru aðdáunarverð. Engan bilbug er að finna þó að ævistarfið sé í húfi. Engin uppgjöf gagnvart þeim stórfelldu verkefnum sem eru framundan þó að útlitið sé svart. Hér koma bestu eiginleikar íslendinga í ljós.

Skýrsla rannsóknarnefndarinnar lýsir atburðarrás í íslenskum samtíma sem líkja má við hamfarir, hamfarir af mannavöldum þar sem græðgi var hreyfiafl allra ákvarðana. Atburðarrás sem var undir eftirliti og á ábyrgð stjórnmálamanna landsins þar sem helstu gerendur voru eigendur bankanna. Þar sem eftirlitið átti að liggja hjá Fjármálaeftirlitinu og stjórn peningamála hjá Seðlabankanum. Hvernig gat þetta gerst? Hvernig gat fámennur hópur fólks leitt heilt samfélag út í slíkar ógöngur eins og tíundaðar eru í skýrslunni án þess að rauð flögg kæmu upp nánast allstaðar í samfélaginu. Hér verður að kalla fólk til ábyrgðar svo hægt verði að ná sátt í samfélaginu.

Við erum í dag að upplifa veruleika þar sem fjöldi fólks sem er að missa allt sitt. Við sem samfélag verðum að leggjast á eitt til þess að lágmarka tjónið. Hér dugar ekki að búa til úrræði ef þau eru síðan föst í kerfinu eins og félagsmálaráðherra lýsti á dögunum varðandi greiðsluúrræði varðandi skuldastöðu heimilanna. Hér verður að vinna hratt og taka á þeim sem tefja úrlausnirnar og það er á ábyrgð ráðherra að tryggja úrlausn mála. Samkvæmt skýrslu Seðlabankans eru u.þ.b. 27000 fjölskyldur sem eru í brýnum vanda og stöðugt bætist í hópinn sem ekki fær lausn sinna mála. Það er ólíðandi staða að nýta ekki þær lausnir sem til eru en vinna jafnframt áfram með viðbótarúrræði þar sem þess verður þörf.

Þó staðan sé erfið í dag þá eigum við að leita í æðruleysi þeirra Eyjafjallabænda með uppbyggingu til framtíðar.  Í dag eru um 15000 manns án vinnu og án vinnu hverfur allt blóðstreymið úr samfélaginu. Það eru verkefni út um allt. Það eru fjármunir til staðar í samfélaginu og það þarf að nýta þá. Komum Íslandi aftur kortið í samskiptum þjóða og klárum það verk sem stjórnmálaflokkarnir höfðu náð samstöðu um að ljúka Ice save málum við  Breta og Hollendinga.

1. maí krafa Alþýðusambands Íslands er Við viljum vinna. Við gerum þá kröfu til stjórnvalda, sveitarfélaga, bankakerfisins og aðila vinnumarkaðarins að leggja deilur til hliðar. Snúum bökum saman við endurreisn Íslands og uppbyggingu atvinnulífs þar sem allir eiga sinn stað. Þá munum við sem þjóð geta tekist á við öll þau stóru verkefni með sama kraftinum og æðruleysinu eins og bændurnir undir Eyjafjöllum.

Sigurður Bessason
Formaður