Uppbygging í Reykholti

29. 11, 2010

reykholt                 Næsta stóra skrefið í orlofsmálum

Uppbygging í Reykholti

– segir Sveinn Ingvason hjá Eflingu

Ég held að stjórn Eflingar – stéttarfélags og orlofsnefndin okkar hafi þarna mótað mjög farsæla stefnu, segir Sveinn Ingvason, sviðsstjóri orlofsmála hjá Eflingu um þá stefnumótun félagsins að hefja uppbyggingu orlofssvæðis í Reykholti sem næsta stóra verkefni félagsins í orlofsmálum. Þetta svæði hefur allt það glæsilegasta til að bera, stórbrotið útsýni, kyrrlátt umhverfi, góða þjónustu í nágrenni við fallega veiði- og útivistarstaði auk þess að stutt er í fjallaferðir, segir hann. Þá er skammt að bíða að brú verði opnuð á Hvítá yfir að Flúðum en það auðveldar allar ferðaleiðir á svæðinu.

 Allt frá árinu 1944 hefur Efling, áður Verkamannafélagið Dagsbrún, átt um 16 hektara spildu í landi Stóra Fljóts í  Reykholti í Bláskógabyggð, sem áður voru Biskupstungur.

Tilurð þess er, að Verkamannafélagið Dagsbrún hafði á þeim tíma hugmyndir um að byggja þar hvíldarheimili fyrir reykvíska verkamenn og fjöldskyldur þeirra. Voru þetta stórbrotnar hugmyndir eins og meðfylgjandi auglýsing frá þeim tíma ber vott um, en hún  mun vera frá því í kringum 1950. Á þessum árum var byggður braggi á staðnum í þessum tilgangi.

Ekki varð af þessum merkilegu áformum og dofnaði smám saman yfir þessum hugmyndum og hefur landið verið ónotað af hálfu félagsins áratugum saman.

Land þetta liggur alveg að byggðinni í Reykholti og teygir sig til suðurs niður að Tungufljóti og er afar fagurt og stórbrotið. Auk þess hefur staðsetningin upp á að bjóða allt það sem til kosta þykir þegar um orlofshús er að ræða, segir Sveinn.
 
Mikil ásókn hefur verið í langan tíma í orlofshús Eflingar á Suðurlandi og alla jafna ekki hægt að verða við öllum óskum félagsmanna um hús á því svæði. Uppbygging í Aratungu er því kærkomin og mun fullnægja óskum margra félagsmanna um orlofsdvöl.  Í kjölfar umræðu um að fjölga orlofshúsum á Flúðum kviknaði sú hugmynd að skoða heldur uppbyggingu í Reykholti. Með nýrri vegtengingu og brú á Hvítá verða aðeins um 7 kílómetrar á milli þessara staða. Skemmst er frá því að segja að eftir ítarlega skoðun og fundarhöld samþykkti stjórn Eflingar og stjórn orlofssjóðs að hefja skyldi undirbúning að uppbyggingu í Reykholti og er málið nú í ferli hjá byggingar- og skipulagsnefnd Bláskógabyggðar.

Eru nú miklar líkur á því að strax á næsta ári verði hafist handa á svæðinu, en deiliskipulag fyrir svæðið frá árinu 2004 gerir ráð fyrir byggð á landinu og flýtir það öllum undirbúningi til mikilla muna.