Að tapa trúverðugleika

ad_tapa_truverdugleika

Að tapa trúverðugleika

Ljóst var allt síðasta ár að þetta yrðu erfiðustu kjarasamningar sem stéttarfélögin hefðu glímt við áratugum saman. Ríkisfjármál Íslands eru að rísa úr rúst eftir efnahagshrunið haustið 2008. Staða allra stærstu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu er þannig að þau þurfa öll að grípa til harðra aðhaldsaðgerða. Fjöldi fyrirtækja hefur orðið gjaldþrota og önnur komin í eigu banka og fjármálastofnana. Um 14.000 manns eru á atvinnuleysiskrá og fjöldi launamanna hefur orðið fyrir þungum búsifjum fyrir utan þær þúsundir sem hafa flúið land í leit að betra lífi.

Það hefur komið fram á fundum í Eflingu-stéttarfélagi að launafólkið í félaginu er algerlega meðvitað um þessa stöðu. Fólk sem hefur verið að tapa miklum kaupmætti, yfirvinnu sinni og hluta af ýmsum samningsbundnum kjörum sínum veit að það er ekki mikið til skiptanna. Það fólk reisti ekki háar kröfur í sérkjarasamningum eða almennum kjarasamningum. Það veit að mikið atvinnuleysi og rýrnandi kjör þýða enn meira atvinnuleysi á almennum vinnumarkaði ef boginn er spenntur of hátt. Það veit líka að þeir sem lökust hafa kjörin verða harðast úti í svona efnahagsástandi.

Einmitt þess vegna var brýnt í þessum samningum  að semja á vegum heildarsamtaka og ná að lyfta kjörunum meira fyrir þá sem eru á lægri tekjum. Þetta hefur verið sjónarmið Eflingar og Flóabandalagsins allt frá upphafi kjarasamninganna. Sama stefna hefur verið rekin gagnvart ríki og sveitarfélögum. Að hvetja þau til að fara ekki of hart í aðhaldsaðgerðir og skattahækkanir til þess að höggið verði ekki enn þyngra en það þarf að vera.

Stóru vonbrigðin eru þau að bæði Samtök atvinnulífsins og ríkisstjórnin hafa ekki spilað rétt úr þessari vandasömu stöðu. Ríkisstjórnin hefur tekið upp umdeildasta ágreiningsefni þjóðarinnar, fiskveiðistjórnunarkerfið og tilkynnt um veigamiklar breytingar á því einmitt þegar við þurfum að einbeita okkur að uppbyggingu atvinnulífs á öllum sviðum til að vinna gegn atvinnuleysinu og bæta kjörin í landinu.

Samtökum atvinnulífsins hefur tekist að fá allan almenning í landinu á móti sér með kröfum sínum um að fá á borðið tillögur ríkisstjórnarinnar um fiskveiðistjórnunarkerfið áður en skrifað yrði undir samninga. SA hafa dregið samninga vikum og mánuðum saman vegna þessa ágreiningsmáls við ríkisstjórnina. Þau bættu svo gráu ofan á svart með því að semja við eitt stærsta fyrirtæki landsins til þriggja ára með samningi sem þau höfðu neitað að gera við ASÍ fáum dögum áður.

Með afstöðu sinni hafa Samtök atvinnulífsins tekið laun ræstingarkonunnar og í reynd launamál allra landsmanna í gíslingu. Afstaða SA er óafsakanleg og aðalfundur Eflingar-stéttarfélags hefur krafist þess að samtökin gangi nú þegar til samninga við launafólk og afstaða þeirra hlýtur að þýða kröfu um afturvirkni launaliðar samninganna sem er algerlega á þeirra ábyrgð.

Það er hlutverk ASÍ og SA að semja um kaup og kjör í landinu. Það hlutverk má ekki hverfa í bakgrunn pólitískra átaka. Við það tapa allir. Launafólk tapar í launum og réttindum en Samtök atvinnulífsins tapa trúverðugleika og trausti sem er öllum samtökum nauðsynlegt.

Sigurður Bessason
formaður Eflingar-stéttarfélags