Þeir lægst launuðu skildir eftir

10. 06, 2011

Slitnað upp úr viðræðum

Þeir lægst launuðu skildir eftir

Þann 9. júní slitnaði upp úr viðræðum á milli Flóabandalagsins ( Eflingar, Hlífar, VSFK) og Samninganefndar Sambands Sveitarfélaga. Undanfarnar vikur og mánuði hefur verið unnið að gerð kjarasamnings f.h. starfsmanna Kópavogsbæjar, Seltjarnarnesbæjar, Mosfellsbæjar, Garðabæjar, Hafnafjarðarbæjar, Álftanes, Voga, Reykjanesbæjar, Hveragerðis og Þorlákshafnar.

Samninganefnd Flóans og Starfsgreinasambandsins lögðu fram sambærilegar kröfur gangvart sambandinu og gagnvart öðrum aðilum.  Samninganefndirnar höfnuðu ítrekað  framlagðri launatöflu sambandsins þar sem á henni voru mjög alvarlegar brotalamir.
 Hundruð einstaklinga sem röðuðust neðst í launatöflunni áttu einungis að fá 21.158 kr. launhækkun, meðan allir aðrir kjarasamningar hafa gengið út á að launfólk hækki um 34.000 kr. á samningstímanum.
Tilboð sambandsins gekk að auki út frá 8 mánaða lengri samningstíma sem þó átti aðeins að gefa  27.000 kr. hækkun til viðkomandi starfsmanna á tæplega 4 ára samningstíma. Þá vantar rúmlega 84.000 kr. upp á launin á ársgrundvelli miðað við sambærilega samninga.

Samninganefnd sambands sveitarfélaga hefur haldið þeim rökum á lofti að lægst launuðu starfsmenn sveitafélaganna hafi fengið of miklar launahækkanir í undangegnum samningum og nú verði þeir að gefa eftir.  Það er ótrúlegt að upplifa að það skulu vera sveitastjórnir ofangreindra sveitafélaga sem ganga fram með þessum hætti  því samninganefnd sveitafélaganna talar í þeirra nafni. Þetta gerist á sama tíma og samninganefndir á almennum vinnumarkaði , hjá ríkinu og hjá Reykjavíkurborg hafa haldið sig við samræmda launastefnu. Þessi afstaða sambandsins hefur hleypt málinu í harðan hnút. Málið er nú komið til Ríkissáttasemjara.