Gallup frétt

18. 11, 2011

heimasida_gallup                                                                                Ný Gallup könnun sýnir að

Vinnutími styttist og hlutastörfum fjölgar

– en dregur úr fjárhagsáhyggjum

Í nýrri Gallup könnun um hagi félagsmanna Eflingar, Hlífar og VSFK kemur fram að um 10% félagsmanna telur sig ekki hafa fengið neina launahækkun í kjölfar nýrra kjarasamninga.  Þetta gerist einnig í hópi starfa í umönnun og á leikskólum þar sem launahækkanir hefðu klárlega átt að skila sér í formi hærri launataxta og eingreiðslna.  En á sama tíma sjáum við merki um aukna skerðingu á vinnutíma hjá nánast öllum hópum sem þýðir lægri upphæðir í launaumslagið. Um 67% svarenda telja starfsöryggi sitt mikið og þeim fer aðeins fækkandi sem hafa miklar áhyggjur af fjárhagslegri stöðu sinni.  Þó fjölgar þeim sem hafa leitað sér aðstoðar vegna fjárhagslegrar stöðu sinnar um nærri 10 prósentustig, úr rúmum 19% í tæp 28%.

Greinileg merki um aukna skerðingu á vinnutíma
Mun fleiri nú en í fyrra svara því til að þeir séu í hlutastörfum  eða tæplega þriðjungur svarenda.  Þannig eru um 65% þeirra sem starfa við umönnun í hlutastörfum nú en voru um 55% í fyrra.  En við sjáum einnig aukningu í hlutastörfum hjá öðrum hópum.  Þannig eru nú um 13% bílstjóra og tækjamanna í hlutastörfum en í fyrra var allur þessi hópur í fullu starfi.  Þá er einnig talsverð aukning hlutastarfa í ýmsum þjónustustörfum þar sem um 38% eru nú í hlutastörfum en voru 15% í fyrra.

Um 10% svarenda telja sig ekki hafa fengið neina hækkun í kjölfar kjarasamninga
Áhyggjur vekur  að um 10% svarenda telur sig ekki hafa fengið neina hækkun í kjölfar kjarasamninga en í þessu úrtaki voru einungis þeir spurðir sem höfðu verið starfandi í eitt ár eða lengur og hefðu því átt að fá umsamdar launahækkanir.  Spurt var hvort viðkomandi hefði fengið hækkun á þá einstaka þætti sem samið var um svo sem eingreiðslu, orlofsuppbót, taxtahækkun eða almenna prósentuhækkun.  Þannig svöruðu um 10% leiðbeinenda og 7% þeirra sem starfa í umönnun að þeir hefðu ekki fengið neina hækkun en hjá báðum þessum hópum hefðu eingreiðslur, taxtahækkun og orlofsuppbót átt að skila sér.  Því er það umhugsunarefni hvort  skerðing á vinnutíma hafi leitt til þess að sumir hópar hafi uppskorið minni hækkun í launaumslaginu en stefnt var að.
Hlutfall þeirra sem sögðust ekki hafa fengið neina hækkun var enn hærra hjá bílstjórum/tækjamönnun eða 18% og 14% hjá þeim sem starfa við iðnaðarstörf.

Konur eru með að meðaltali 35.000 krónum lægri dagvinnulaun en karlar
Þegar dreifing launa er skoðuð þá svarar um 10% þeirra sem eru með atvinnu að þeir séu með heildarlaun undir 200.000 kr. og tæplega þriðjungur að dagvinnulaun þeirra séu undir 200.000.- kr.  Það styður við fyrri vísbendingar að sá hópur sem er að fá greitt samkvæmt lágmarkstöxtum hefur stækkað og er því full ástæða til að fylgjast vel með að ekki sé verið að greiða laun undir lágmarki en lágmarkstekjutrygging fyrir fullt starf er 182.000 kr. í dag og fer í 193.000 kr. í febrúar á næsta ári. 
Karlar hafa um 86 þúsund krónum meira í heildarlaun en konur. Heildarlaun karla í fullu starfi eru að meðaltali 347.000 kr. á mánuði og 261.000 kr. hjá konum. 

Munurinn á dagvinnulaunum karla og kvenna er mun minni en á heildarlaunum eða 35.000 krónur á mánuði.  Karlar eru að meðaltali með 265.000 kr. á mánuði á meðan konur eru að með 230.000 kr.

Af einstaka starfsstéttum eru leiðbeinendur sem flestir starfa á leikskólum með lægstu dagvinnulaunin eða að meðaltali um 222.000 kr.  Það vekur því ekki undran að sá hópur er einnig langósáttastur með sín laun en um 70% þeirra sögðust vera ósáttir með launin á meðan um 50% svarenda í heild sögðust vera ósáttir með launin.  Dagvinnulaun verkstjóra og flokkstjóra eru hæst eða að meðaltali um 373.000 kr. á mánuði.

Færri nú en í fyrra með áhyggjur af atvinnuöryggi og fjárhagslegri stöðu
Þrátt fyrir samdrátt og atvinnuleysi telja nærri 70% félagsmanna sig búa við mikið starfsöryggi og aðeins um 11% telja sig búa við lítið öryggi í starfi. Þetta er svipuð niðurstaða og á síðasta ári en þó eru ívið fleiri nú sem telja sig hvorki örugga né óörugga.

Þeim fækkar lítillega sem hafa miklar áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni, þó verður ekki fjölgun meðal þeirra sem hafa litlar áhyggjur, heldur fjölgar þeim lítillega sem segjast hvorki hafa miklar eða litlar áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni.  Hópurinn er þó ennþá stór sem hefur miklar áhyggjur, en tæplega helmingur svarenda hefur ennþá miklar áhyggjur af fjárhagslegri stöðu sinni.

Aukning í hópi þeirra sem hafa leitað sér aðstoðar vegna fjárhagslegrar stöðu
Tæplega 30% hafa leitað sér aðstoðar vegna fjárhagslegrar stöðu á síðastliðnum 12 mánuðum sem er aukning frá því í fyrra þegar að innan við 20% svöruðu þessari spurningu játandi.  Mun fleiri í hópi atvinnuleitenda og þeirra sem voru að vinna uppsagnarfrest höfðu leitað sér aðstoðar, eða nærri helmingur.  Um 23% þessa hóps höfðu leitað sér aðstoðar hjá ættingjum og vinum, um 15% hjá viðskiptabanka sínum og um 11% hjá hjálparsamtökum.

Mun fleiri nú hafa dregið úr eldsneytiskaupum og útgjöldum vegna heilbrigðisþjónustu
Nú fjórða árið í röð erum við að sjá að meirihluti félagsmanna hefur dregið úr ýmsum útgjöldum svo sem til ferðalaga, í fatnað og tómstundir.  Þá er ríflega helmingur að draga úr útgjöldum vegna matarkaupa.  En það veldur áhyggjum að hann fer sífellt stækkandi sá hópur sem dregur úr kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu og er hann nú tæplega þriðjungur félagsmanna. Þá var töluvert stærri hópur nú en í fyrra sem að jók við eldsneytissparnaðinn eða um 63% svarenda.
 
Margt fleira athyglisvert í könnuninni
Það er margt fleira sem er athyglisvert í þessari könnun, svo sem álag í starfi, viðhorf til stéttarfélaganna og Vinnumálastofnunar og margt fleira mætti telja. Fyrir áhugasama er rétt að benda á að könnunina má skoða í heild á vef Eflingar.

Gallup könnun

Um könnunina
Markmiðið var að kanna kjör félagsmanna Eflingar, Hlífar og VSFK.
Könnunin var framkvæmd 16. september til 20. október 2011
Síma og netkönnum meðal 3284 félagsmanna
Endanlegt úrtak 2251 en svarendur alls 1274 og svarhlutfall er 56,6%