Mikilvægt að greiða áfram í séreignarsparnað

21. 12, 2011

Mikilvægt að greiða áfram séreignarsparnað

-Frádráttarbært iðgjald launamanns lækkar úr 4% í 2%

Nú um áramótin ganga í gegn breytingar á lögum er varða skattlagningu lífeyrissparnaðar. Frádráttarbært viðbótariðgjald launamanns sem ráðstafað er í séreignarsparnað lækkar við þessa breytingu úr 4% í 2% af launum. Haldi launamaður áfram að greiða 4% framlag í viðbótarlífeyrissparnað mun það leiða til tvísköttunar á þessum hluta iðgjaldsins. Mótframlag atvinnurekenda verður áfram 2%. Þá er mikilvægt að benda á að ekki er greiddur fjármagnstekjuskattur af þessum sparnaði eins og af hefðbundnum innlánsreikningum.  Launafólki er því eindregið ráðlagt að halda áfram með þann hluta séreignarsparnaðar sem ekki er tvískattaðar þar sem hin frádráttarbæru iðgjöld verða með hagkvæmustu sparnaðarleiðum sem gefast þrátt fyrir þessa breytingu.

Alþingi hefur samþykkt að heimildir launþega til greiðslu á frádráttarbæru iðgjaldi til viðbótarlífeyrissparnaðar lækka úr 4% af launum í 2% næstu þrjú árin  eða frá byrjun janúar til loka ársins 2014. 

Efling telur það afar misráðið að ríkið auki tekjur sínar með þessu móti til skamms tíma og vegi þannig að kerfi sem tekist hefur að byggja upp frá 1999.  Ljóst er að þörfin fyrir viðbótarlífeyrissparnað er jafn mikilvæg og áður. Sparnaðurinn hækkar eftirlaunin og þörfin fyrir opinberan stuðning verður minni.

Það er mjög mikilvægt að félagsmenn sem hafa til þess fjárhagslega getu, haldi áfram að greiða í viðbótarlífeyrissparnað.  Áfram gildir sú regla að launagreiðandi greiðir 2% mótframlag á móti 2% framlagi launamanns sem er frádráttarbært frá skatti. Við hvetjum félagsmenn til að fylgjast vel með því að iðgjöld skili sér frá launagreiðendum og bera saman við yfirlit sem eiga að berast tvisvar á ári.  Ef yfirlit berst ekki frá sjóðnum getur það þýtt að launagreiðandi standi ekki í skilum. 

Kosturinn við viðbótarlífeyrissparnað er að einstaklingar ráða því sjálfir hvort þeir nýta sér hann til að búa í haginn fyrir framtíðina. Allir hagnast ef einstaklingar geta nýtt sér þessa heimild. Einstaklingurinn sjálfur fær hærri eftirlaun, ríkið fær skatta af eftirlaununum og þörfin fyrir opinberan stuðning verður minni. Inngrip af þessu tagi lýsir því mikilli skammsýni af hálfu ríkisins og er óvíst að einstaklingar byrji aftur að spara þó svo að heimildir verði auknar á ný.