Lífið er fullt af tilviljunum

27. 01, 2012

lifid_er_fullt_af_tilviljunum                                                                                Sambýlið Breiðabólsstaður

Lífið er fullt af tilviljunum

– segja hjónin Pétur Ottósson og Ólöf Haraldsdóttir

Pétur og Ólöf hafa búið á bænum Breiðabólsstað í 20 ár og hefur starfsemin þar tekið ýmsum breytingum í gegnum árin. Þau byrjuðu á að taka til sín börn í sumarvist en reka nú sambýli fyrir geðfatlaða menn ásamt því að hafa ávallt stundað einhvern búrekstur samhliða.

Hvernig kom það til að hjónin settust að á Breiðabólsstað? Við bjuggum í Hveragerði og ég vann sem sendibílstjóri en Ólöf vann sem vistastjóri á stelpuvistinni í Hlíðarskóla ásamt því að kenna handmennt þar og elda þegar Breiðabólsstaður varð laus til ábúðar og við hjónin tókum hann á leigu, segir Pétur.  Þau eru bæði vön sveitamennsku, Pétur ólst upp austur á Fjörðum á Fáskrúðsfirði og Ólöf austur í Húnavatnssýslu í sveit þannig að umskiptin voru ekki erfið. Á tímabili vorum við með hundrað ær og töluvert af hrossum. Því miður kom upp riða hjá okkur og við þurftum að fella féð, segir Pétur en bætir við að áður hafi verið hér rekið kúabú og stórt fjárbú á bænum. 

Hjónin hafa alltaf haft gaman af hestamennsku og alla tíð verið með hesta á bænum. Ólöf vann áður við að temja hesta fyrir þau og aðra. Stundum voru hér útlendar stelpur til aðstoðar.  Þær kölluðu Ísland fyrirheitna landið en það er mikill áhugi fyrir íslenskum hestum hjá erlendum hestamönnum, segir Pétur. Nú sé búskapurinn hins vegar orðinn mun minni og hestamennskan einungis tómstundagaman.

Lífið fullt af tilviljunum
Stuttu eftir að við fluttum á Breiðabólsstað byrjaði fólk á því að biðja okkur um að taka börnin sín í vist hér sem við gerðum. Eitt leiddi af öðru og við byrjuðum á því að fá börn í sumardvöl í gegnum félagsmálayfirvöld. Það var gott að vera með börnin hér á bænum, við vorum með hesta  og langflestum krökkum þykir gaman að fara á hestbak, því hentaði þetta vel, segir Ólöf. Hjónin höfðu ánægju af því að taka börnin að sér og nokkrum árum síðar þróaðist það út í að þau tóku að sér unglinga. Ég hef alltaf verið félagslynd manneskja og því hentar mér vel að vera innan um fólk, segir Ólöf.

Lífið er fullt af tilviljunum svarar Ólöf þegar hjónin eru spurð að því hvernig það atvikaðist að þau fóru úr því að taka að sér unglinga í að vera með fullorðna karlmenn á heimilinu. Aðstæður höguðu því þannig að bróðir minn sem er geðsjúkur gat ekki lengur verið hjá foreldrum okkar þannig að hann flutti til okkar. Í kjölfarið vorum við beðin um að fá til okkar annan mann og svo leiddi eitt af öðru og nú erum við með fimm heimilismenn hjá okkur og átta stöðugildi í vinnu. Heimilislífið gengur vel fyrir sig og allir hjálpast að. Við gerum okkur ýmislegt til skemmtunar, við förum í bæjarferð til Hveragerðis að versla jólagjafir og mennirnir fara í vinnu á VISS sem er verndaður vinnustaður í Þorlákshöfn. Aðspurð hvort að heimilismenn séu ekki duglegir að umgangast dýrin segir hún að þeir séu mjög ánægðir með hundinn og köttinn á heimilinu.

Mikilvægt að hlaða batteríin
Ásamt því að búa á bænum Breiðabólsstað eiga þau hjónin hús í Hveragerði sem þau verja tíma sínum í þegar þau eru ekki á bænum að vinna. Við gistum í því þegar við erum ekki á næturvakt hér á bænum en það er mikilvægt að eiga afdrep út af fyrir okkur, segir Pétur og Ólöf  bætir við að það sé nauðsynlegt að fá tækifæri til að hlaða batteríin svo maður mæti tilbúinn í verkefni dagsins því þau eru jú mörg. Pétur og Ólöf eru ekki vön að taka sumarleyfi  en fóru í frí í fyrsta sinn í sumar. Við fórum í hálfsmánaðar hestaferð norður í Húnavatnssýslu og það var frábær ferð í alla staði, segir Ólöf.

Málar myndir í frístundum
Frítíma sinn notar Ólöf í að mála myndir en hún er mikil listakona í sér. Ég hef alltaf haft gaman af því að mála, segir hún. Ég fór í Myndlista- og handíðaskólann og svo í Myndlistaskólann í Reykjavík. Ég nota bæði olíu og vatnsliti og mála mikið af hestum, segir hún. Hún málar bæði á heimili sínu í Hveragerði og í litlu húsi við hlið Breiðabólsstaðar sem heitir nú Ömmuhús. Þetta er vinnuskúr sem við gerðum upp og þegar ég hef tíma fer ég út í hann og mála, það er ósköp notalegt. Ólöf selur talsvert af myndum sínum og hefur haldið tvær einkasýningar í Þorlákshöfn og eina samsýningu á Stokkseyri.

Saman um jólin
Jólunum verja Pétur og Ólöf með heimilismönnum á heimili sonar síns, tengdadóttur og dætra þeirra þriggja í Hveragerði en það hafa þau ætíð gert. Sonur okkar og fjölskyldan hans þekkja orðið engin önnur jól en að fá okkur öll til sín segja þau. Jólaundirbúningar var á fullu þegar fréttamaður og ljósmyndari Eflingar leit við og Ólöf og Hallgrímur heimilismaður í jólabakstrinum. Ef við horfum til baka finnst okkur við hafa gert gagn, þetta er gott heimili segja þau bæði að lokum.