Samþykkir umboð til framlengingar samninga

19. 01, 2012

Fundur  samninganefndar Flóafélaganna

Samþykkir umboð til framlengingar samninga

Mikil óánægja með stjórnvöld á fundinum

Samninganefnd Flóafélaganna, Eflingar, Hlífar og VSFK samþykkti í gærkvöldi 18. janúar ´12 með einróma ályktun þar sem umboð er veitt til framlengingar kjarasamninganna. Í ályktuninni eru stjórnvöld harðlega gagnrýnd fyrir að hafa ekki staðið við sinn hluta af fyrirheitum sem veitt voru við gerð kjarasamninganna. Á fundinum kom fram mikil gagnrýni á núverandi stjórnvöld vegna vanefnda ríkisstjórnarinnar  en fundurinn taldi engar forsendur til að slíta kjarasamningi við atvinnurekendur þar sem þeir hafa staðið við ákvæði samninganna.
Ályktunin er meðfylgjandi ásamt samþykkt um umboð til framlengingar samninganna.

Samninganefnd Eflingar-stéttarfélags, Vlf. Hlífar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis átelur stjórnvöld harðlega fyrir að hafa ekki staðið við gefin fyrirheit í samræmi  við loforð sem fylgdu gildandi kjarasamningum.

Á félagssvæði félaganna þriggja er viðvarandi langtímaatvinnuleysi sem skrifast beint á máttleysislegar aðgerðir  stjórnvalda í atvinnumálum. Stéttarfélögin og ASÍ hafa allt frá hruninu haustið 2008 lagt megináherslu á að halda uppi atvinnu. Samkomulag aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda gekk út á að efla atvinnu og fjölga störfum í landinu. Það hefur stjórnvöldum mistekist.

Stéttarfélögin minna á að félögin og Samtök atvinnulífsins hafa staðið að fullu við ákvæði kjarasamninganna þannig að ekki er tilefni til uppsagna samninganna gagnvart atvinnurekendum . Við ákvörðun um framlengingu þeirra er því mikilvæg krafa á ríkisvaldið að stjórnin standi við fyrirheitin sem gefin hafa verið.

• Að atvinnuleysisbætur og bætur almannatrygginga fylgi launahækkunum
• Að ríkið hverfi frá fyrirhugaðri skattlagningu á réttindi  í almennu lífeyrissjóðunum
• Að ríkið standi við fyrirheit um endurskoðun á tekju- og eignatengingu vaxta- og barnabóta

Samninganefnd Flóafélaganna minnir á að löng hefð er fyrir árangursríku samstarfi aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda. Á þessu samningstímabili hafa stjórnvöld gengið gegn markmiðum samninganna um stöðugleika og atvinnuuppbyggingu og þannig grafið undan mikilvægum undirstöðum þessa samstarfs. Það vantraust sem stjórnvöldin bera fulla ábyrgð á verður ríkjandi áfram þar til stjórnin stendur að fullu við þau fyrirheit sem gefin voru við gerð síðustu kjarasamninga. 

Samþykkt samninganefndar um umboð til framlengingar

Samninganefnd Flóabandalagsins, Eflingar-stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar og Verkalýðs- og Sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis veitir hérmeð formanni samninganefndar umboð til að vinna að samkomulagi með samninganefnd ASÍ og SA um framlengingu kjarasamninga í samræmi við kynningu á fundinum.

Jafnframt veitir samninganefndin heimild til að samkomulagið verði afgreitt með jákvæðum hætti til samninganefndar ASÍ. Samninganefndin áréttar um leið ítrekaðar kröfur verkalýðshreyfingarinnar um að stjórnvöld standi við fyrirheit sem fylgja gildandi kjarasamningum og vísar þar til ályktunar fundarins.