Ársfundur faghóps félagsliða 2012

30. 03, 2012

arsfundur_felagslida                                                                     Ársfundur faghóps félagsliða

Framhaldsnám sem eflir fagvitund félagsliða

Áttundi ársfundur faghóps félagsliða var haldinn 29. mars síðast liðinn og voru Anna Gísladóttir og Guðný Brynjólfsdóttir kosnar nýjar í stjórn og fráfarandi stjórnarmönnum, Jenný Jensdóttur og Lilju Eiríksdóttur, þökkuð vel unnin störf.  Lilja las ársskýrslu faghópsins þar sem fram kom að mikilvægt væri að finna leiðir til að störf félagsliða væru meira metin, ekki síst þar sem að löggildingin væri ekki inni í myndinni.  Þá benti Lilja á að brýnt væri að störf félagsliða sem vinna í heimaþjónustu Reykjavíkurborgar færu í endurmat, þar sem að störfin hefðu tekið verulegum breytingum og félagslegi þátturinn spilaði stærra hlutverk en áður.

Alti Lýðsson, fræðslustjóri Eflingar, kom inn á mikilvægi endurmenntunar og hvatti félagsliða til að „stinga sér út í djúpu laugina“ og sækja nýtt framhaldsnám fyrir félagsliða sem að Borgarholtsskóli yrði með.  Þórkatla Þórisdóttir, kennslustjóri hjá Borgarholtsskóla, greindi frekar frá náminu og sagði að markmiðið með náminu væri að styrkja stöðu félagsliða í starfi og efla fagvitund félagsliða.  Nemendur þurfa að hafa lokið grunnnámi félagsliða og starfað sem slíkir í a.m.k. tvö ár.  Gert er ráð fyrir að námið sé 36 einingar og er skipt í 11 áfanga.  Hægt er að stunda námið samhliða vinnu og raunhæft að nemandinn geti dreift náminu á fjórar annir.  Þá eru verkefnin bæði unnin í kennslustundum og eins utan þeirra.  Lögð er áhersla á verklega kennslu og er vinnustaðanám skipulegt í sex vikur á síðari hluta námsins.