dagsferðir Vestm.

29. 06, 2012

vestmannaeyjar

Vestmannaeyjar – Dagsferðir

Fullt er í báðar ferðir

Í sumar eins og jafnan áður eru í boði hjá Eflingu skemmtilegar dagsferðir og hafa þær í mörg ár notið mikilla vinsælda. Í ár verður boðið uppá dagsferðir til Vestmannaeyja. Ferðadagar eru 25. ágúst og 1. september n.k. Fullt er í báðar ferðir og kominn biðlisti.

Ferðinni er heitið til Vestmannaeyja þar sem fáir staðir á Íslandi eiga sér eins litríka og sérstæða sögu. Fararstjórar verða í rútunum til og frá Eyjum og síðan við komu til Eyja fáum við frábæra leiðsögumenn um borð sem segja okkur frá því markverðasta í sögu Eyjanna.

Fyrr á öldum rændu sjóræningjar Vestmannaeyjar, en á síðari áratugum hafa orðið þar meiri náttúruhamfarir en um getur í byggð síðan Skaftáreldar dundu yfir árið 1783; ennfremur einstætt náttúruundur er nýtt land reis úr öldum hafsins, þegar Surtsey varð til. Vegna mikillar einangrunar Eyjanna við land fyrr á tíð urðu Vestmannaeyingar að vera sjálfum sér nógir um flesta hluti og allt skapaði þetta sérstæða menningu og siðvenjur. Náttúra Vestmannaeyja, viðburðarík sagan og margslungið, þróttmikið mannlíf í Eyjum er þeirrar gerðar að … sjón er sögu ríkari.

Farið verður með rútu frá Eflingu, Sætúni 1 kl. 07:45 og er því mæting kl. 07:30.

Veitingar verða síðan í Höllinni í Eyjum kl. 15:00 og lagt af stað frá Eyjum með bátnum kl. 17:30 og áætluð koma til Reykjavíkur um kl. 20:00.

Ferðin kostar kr. 5.000,-

Mæting báða dagana kl. 07:30.