Sannleikanum verður hver sárreiðastur

siggiaadalfundi2012mramma

Leiðari Eflingarblaðsins

Sannleikanum verður hver sárreiðastur

Mikil reiði greip um sig meðal forystumanna  í  ríkisstjórninni þegar Alþýðusamband Íslands sendi frá sér auglýsingu um vanefndir stjórnvalda á fyrirheitum í tengslum við síðustu kjarasamninga ASÍ og Samtaka atvinnulífsins.

Bæði atvinnumálaráðherra og forsætisráðherra lýstu mikilum  vonbrigðum með auglýsinguna og það vakti athygli hve viðbrögð þeirra voru vanstillt og stóryrt. Sérstaka athygli vakti einnig hvernig forystumenn ríkisstjórnarinnar persónugerðu vandann í forseta ASÍ.

Allt ber þetta vott um óvandaða og skrumskælda íslenska umræðuhefð. Það er fullkomlega eðlilegt að Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins fari yfir öll þau atriði sem snúa að kjarasamningunum og málum nú þegar um ár er eftir af samningstímabilinu. Um er að ræða gríðarlega hagsmuni launafólks og atvinnurekenda og fráleitt að þessir aðilar hafi ekki uppi kynningu á sjónarmiðum sínum er varða möguleika á framlengingu gildandi kjarasamninga.

Því er stundum haldið fram og er áberandi í umræðunni nú m.a. af hálfu stjórnmálamanna að aðilar vinnumarkaðar hafi of mikil áhrif á stefnumótun stjórnvalda í mikilvægum málaflokkum svo sem í fjárlögum ríkisins, skattamálum og ýmsum öðrum þáttum sem tengjast fjármálum ríkisins.
Þetta eru mjög vanhugsuð sjónarmið. Öll skattlagning á einstaklinga og fyrirtæki hefur áhrif á stöðu launafólks, ráðstöfunartekjur þeirra og lífsafkomu. Margir þessara þátta eins og t.d. tryggingagjaldið eiga sér uppruna í baráttu launamanna fyrir mannsæmandi kjörum og launum í atvinnuleysi.  Barnabætur og vaxtabætur geta haft afgerandi áhrif á afkomu ungra fjölskyldna. Ef Alþýðusamband Íslands færi að þessum sjónarmiðum gagnrýnenda, væru öflugustu og fjölmennustu samtök launafólks um leið að samþykkja algert áhrifaleysi varðandi afkomu stórra hópa launamanna.

Í íslensku orðtæki segir að sannleikanum verði hver sárreiðastur. Staðreyndin er sú að ríkisstjórn Íslands hefur ekki staðið við fjölmörg fyrirheit sem gefin voru við gerð kjarasamninganna. Það eru engir betur til þess fallnir en aðilar vinnumarkaðar að meta hvað er hæft í því. Þeir einir vita hvað rætt var og skjöl sem staðfesta fyrirheitin liggja öll fyrir.

Það er ljóst að ekki hefur verið staðið við mikilvægar aðgerðir í atvinnumálum. Átakið VIRKNI 2013 er góðra gjalda vert en tekur ekki á framtíðaruppbyggingu atvinnumála hér á landi. Það er öllum ljóst að framkvæmdir samkvæmt rammaáæltun eru í uppnámi.  Gengi krónunnar sem var til viðmiðunar í kjarasamningunum er á stöðugri niðurleið og helsta viðmið Seðlabanka og ríkisstjórnar í verðbólgutölu er langt frá því að standast. Þá er það alvarlegt að ríkisstjórnin skattleggur nú lífeyrisréttindi á almennum markaði sem gengur beint gegn fyrirheitum um að jafna rétt milli opinberra starfsmanna og almenna markaðarins. Gefin voru fyrirheit um að stíga fyrstu skrefin til jöfnuðar í lífeyrismálum og það hefur ekki verið efnt. Þá er ágreiningur milli aðila um það hvort stjórnvöld hafa hækkað bætur atvinnuleysistrygginga og almannatrygginga til jafns við hækkun lægstu launa.

Í lýðræðisþjóðfélagi verðum við að sætta okkur við að þola sjónarmið hvers annars. Það er alveg ljóst að komið er að þolmörkum þess sem lifandi verkalýðshreyfing getur látið bjóða sér fyrir hönd launamanna. Þetta verða stjórnvöld að þola hversu bitur sem þessi sannleikur er.