Skattfrjálsar samgöngugreiðslur

22. 02, 2013

hjola

Karl Ó. Karlsson, lögmaður Eflingar

Skattfrjálsar samgöngugreiðslur til starfsmanna

Athygli félagsmanna Eflingar-stéttarfélags er vakin á því að síðla árs 2012 samþykkti Alþingi breytingu á skattalögum sem tók gildi 1. janúar sl. Í samræmi við lagabreytinguna hefur ríkisskattstjóri gefið út skattmat vegna ársins 2013 þar sem kemur fram að ekki skal telja til skattskyldra hlunninda greiðslu launagreiðanda á kostnaði launþega vegna ferða milli heimilis og vinnustaðar og/eða vegna ferða í þágu launagreiðanda, ef nýttar eru almenningssamgöngur eða vistvænn samgöngumáti, enda fari greiðslan ekki umfram 7.000 kr. á mánuði. Eftirtöldum skilyrðum verður að vera fullnægt:

1. Undirritaður sé formlegur samningur milli launagreiðanda og launþega um nýtingu á almenningssamgöngum eða vistvænum ferðamáta vegna ferða launþegans til og frá vinnu sinnar og/eða vegna ferða í þágu launagreiðanda.
2. Með vistvænum ferðamáta er átt við að nýttur sé annar ferðamáti en með vélknúnum ökutækjum samkvæmt skilgreiningu umferðarlaga, t.d. reiðhjól eða ganga.
3. Séu framangreind skilyrði ekki uppfyllt er alltaf um að ræða skattskyld hlunnindi án frádráttar ef greiðsla er vegna ferða launþega til og frá vinnu.