Ársfundur Faghóps leikskólaliða 2013

22. 04, 2013

leikskolalidafundur_a

Ársfundur Faghóps leikskólaliða

Mikil vinna fram undan

Faghópur leikskólaliða í Eflingu-stéttafélagi hélt ársfund sinn mánudaginn 15.apríl 2013. Faghópur leikskólaliða er nú að hefja sitt sjötta starfsár og hefur leikskólaliðum hjá Eflingu fjölgað stöðugt á þessum tíma. Stjórn leikskólaliða var sjálfkjörin á fundinum og fór Aðalbjörg Jóhannesdóttir yfir ársskýrslu leikskólaliða ásamt því að Ingrid Kuhlman hélt vel heppnaðan fyrirlestur um Samþættingu starfs og einkalífs. 

Ingrid Kuhlman hélt fyrirlesturinn Samþætting starfs og einkalífs en  hún starfar hjá Þekkingarmiðlun ehf. Í erindi hennar kom fram að samþætting starfs og einkalífs getur oft á tíðum verið flókin og nýlegar rannsóknir sýna að næstmesti streituvaldurinn í vinnunni er sá að reyna að samræma vinnu og einkalíf. Hún sagði að öll lifum við erilsömu lífi og reynum að halda jafnvæginu á milli starfsframa, fjölskyldunnar, annarra ábyrgðarhlutverka og áhugamála utan vinnunnar. Reyndin er sú að við höfum aldrei nægan tíma fyrir allt, en við höfum alltaf tíma til að gera það sem skiptir mestu máli. Í lokin áréttaði hún að tíminn flýgur áfram, um það höfum við ekkert val. 

Í lok fundar fór Sigurrós Kristinsdóttir yfir kjaramál og sagði að ljóst sé að mikil vinna væri framundan þar sem kjarasamningar eru lausir á næsta ári. Hún hvatti einnig leikskólaliða til að taka þátt í átaki ASÍ gegn verðhækkunum og benti á heimasíðu þeirra vertuaverdi.is