Er lesblinda í þinni fjölskyldu

30. 09, 2013

er_lesblinda_i_thinni_fjolskyldu

Er lesblinda í þinni fjölskyldu?

AFTUR Í NÁM

– námskeið sem gæti skipt sköpum

– segir Lilja Rós Óskarsdóttir verkefnastjóri hjá Mími símenntun

Tugþúsundir Íslendinga á öllum aldri glíma við lesblindu af einhverju tagi. Lesblinda er mjög ólík á milli einstaklinga og margir telja sig ekki vera með lesblindu vegna þess að þeir hafa aðeins eina birtingarmynd í huga. Aðrir hafa glímt við erfiðleika í lestri alla tíð en aldrei fengið greiningu.

Margir lesblindir einstaklingar eru vel læsir en eiga erfitt með að meðtaka innihald þess sem er lesið er. Þá er stundum talað um að fólk haldi ekki athygli við lesturinn. Þeir sem upplifa þetta að staðaldri gætu haft mikið gagn af námskeiðinu Aftur í nám.

Erfiðleikar við að stafsetja rétt er ein birtingarmynd lesblindu sem margir kannast við. Þetta getur valdið erfiðleikum í daglegum samskiptum svo sem við að senda tölvupóst eða smáskilaboð í síma.  Fullorðnir einstaklingar sem eiga erfitt með stafsetningu hafa fengið það staðfest ótal sinnum í samskiptum sínum við aðra og fengið neikvæðar athugasemdir þegar þeir gera stafsetningavillur. Þátttakendur í Aftur í nám eiga það margir sameiginlegt að  þeir sleppa alfarið að skrifa á Facebook og að taka þátt í öðrum umræðum á netinu af ótta við háðslegar athugasemdir við stafsetningarvillur.

Sú mynd af lesblindu sem flestir þekkja er að stafirnir ruglast, virðast jafnvel vera á hreyfingu, orð detta út úr textanum og erfiðleikar við að greina á milli ákveðinna stafa. Einnig að erfitt er að fylgja línu og orð sem eru allt annars staðar á blaðsíðunni eiga það til að birtast í rangri setningu.

Erfiðleikar við lestur og skrift hjá fullorðnu fólki benda til að lesblinda sé til staðar og allir þeir sem kannast við eitthvað af því sem hér kemur fram geta haft mikið gagn af námskeiðinu Aftur í nám.

Aftur í nám er 95 stunda námsleið, þar af eru 40 stundir í einkatímum hjá Davis-ráðgjafa. Aðrir námsþættir eru íslenska, sjálfstyrking og tölvur. Í tölvukennslunni er sérstök áhersla lögð á að kynna þátttakendum hvernig hægt er að nota tæknina sér til hjálpar í tengslum við lesblindu.

Nemendur hafa lýst fyrir mikilli ánægju með námið og hafa meðal annars sagt: „Ég gat ekki lesið hálfa blaðsíðu áður en nú er ég langt kominn með skáldsögu.“  „Þetta hefur breytt miklu um sjálfsmyndina.“  „Nú veit ég að ég er ekki vitlaus.“