Starfsmenn Hreint á Landspítala í Fossvogi – Umkvartanir á rökum reistar

27. 11, 2014

Í kjölfar óánægju sem upp kom meðal starfsmanna Hreint sem starfa við ræstingar á Landspítalanum er ljóst að umkvartanir starfsmanna voru fyllilega á rökum reistar.  Eins og greint var frá á heimasíðu félagsins þann 19. nóvember síðastliðinn kom nýlega til áreksturs þegar fulltrúi Eflingar var rekinn af fundi þar sem pólskir ræstingarstarfsmenn höfðu óskað eftir nærveru Eflingar.

 Á fundi sem haldinn var með fulltrúum Eflingar og Hreint þann 26. desember sl.var farið yfir þau ágreiningsefni sem fram hafa komið af hálfu starfsmanna Hreint sem starfa við ræstingar á Landspítala í Fossvogi.  Hreint lýsti yfir fullum vilja að leggja fram tímaskráningar og launaseðla og greiða í framhaldinu það sem á vantaði í vangoldnum launum.  Ljóst er að ýmislegt vantar upp á svo að þær lágmarksgeiðslur séu uppfylltar samkvæmt kjarasamningi.

Fundað verður að nýju með fyrirtækinu í næstu viku til þess að fylgja því eftir að staðið verði við umsamdar leiðréttingar. Ljóst er að umkvartanir starfsmanna voru fullkomlega á rökum reistar.

Gríðarlegt vinnuálag

Starfsmenn Hreint höfðu ítrekað kvartað við fyrirtækið að vinnufyrirkomulagið væri með þeim hætti að unnið væri samfellt í tólf daga án þess að veittur væri frídagur.  Eftir athugasemdir Eflingar hefur Hreint fallist á að breyta því vinnufyrirkomulagi enda kveður kjarasamningur á um að einungis í undantekningartilvikum sé hægt að veita slík frávik.

Vegna umkvartana starfsmanna um mikið vinnuálag skorar félagið á Landspítala Háskólasjúkrahús að mæla þörf vinnuframlags miðað við fyrirliggjandi útboðsgögn fyrir Landspítala í Fossvogi.