Stafræna byltingin

12. 09, 2016

kristjan_bragason2Kristján Bragason, höfundur greinarinnar er framkvæmdastjóri Norrænna Samtaka starfsfólks í hótel, veitinga og ferðaþjónustugreinum.Stafræn bylting sem á ensku nefnist digitalisation er hugtak sem er fyrirferðamikið í norrænni þjóðfélagsumræðu þessa dagana, en margir halda á lofti kostum hennar á meðan aðrir benda á vankantana. Þeir sem eru jákvæðastir telja að stafræna byltingingin muni í ljósi betri upplýsingamiðlunar, aukins gagnsæis, auðveldari samskipta, betri nýtingu gæða og minni mengunar skila sér í jafnara, réttlátara, lýðræðislegra og sjálfbærara samfélagi. Á móti telja aðrir að þessi þróun muni leiða til margs konar neikvæðra afleiðinga. Þar má nefna mikla fækkun starfa, lakari laun og aðbúnað, lægri skatta og minni ríkisumsvif, aukinn tekjuójöfnuð, húsnæðisvanda og aukna samkeppni einstaklinga. Þá eru líkur á að dragi úr samstöðu og eftirlit allt muni aukast auk þess sem óskýr mörk verði á milli vinnu og fjölskyldulífs. Allt eru þetta þættir sem munu grafa undan velferðarkerfinu.Stafræn bylting og afleiðingar hennar er ein stærsta áskorun sem norræn verkalýðshreyfing stendur frammi fyrir hvað varðar breytingar á vinnumarkaði og áhrif hennar á kjör og aðbúnað launafólks í framtíðinni. Verkalýðshreyfingin hefur reynt að nálgast málið með hlutlæga sýn á það og margir innan hreyfingarinnar sjá bæði kosti og galla við þessa byltingu. Hlutverk okkar er að benda á ógnirnar sem beinast að launafólki og vara við aukinni misskiptingu og veikara velferðarkerfi.Deilihagkerfið setur þrýsting á kjör og aðbúnað launafólksStafræna byltingin hefur haft mikil áhrif á ferðaþjónustuna, bæði hvað varðar hegðun ferðamanna og framboð á þjónustu. Fólk getur nálgast allar upplýsingar um vörur og þjónustu á netinu, fólk skipuleggur og bókar ferðalög sín þar, viðskiptavinir skiptast á hugmyndum, vörum og þjónustu á netinu, og fólk gefur álit sitt á gisti-, veitinga- og ferðamannastöðum á netinu.Að deila hagkerfinu með öðrumUndanfarin ár hefur mátt sjá „deilihagkerfið“, sem er hluti af stafrænu byltingunni, ryðja sér til rúms í gisti- og ferðaþjónustu. Deilihagkerfi felst í því að fólk deilir eignum sínum eða þjónustu tímabundið með öðrum, annaðhvort ókeypis eða gegn gjaldi, sem ýmist getur falist í fjárgreiðslu eða annars konar þóknun. Einstaklingar bjóða til dæmis fram heimili sín til gistingar og veitingaþjónustu, t.d. Airbnb og AirDine, bíla sína sem samgöngumáta, t.d. Uber og BlaBlaCar, og þekkingu sína á heimastað sínum við leiðsögn, t.d. Greeters og GoRunningTours.Fólk hefur alla tíð deilt og skipst á vörum og þjónustu, svo þetta er ekki nýtt fyrirbæri. Með stafrænu byltingunni hefur viðskiptum af þessu tagi þó verið lyft upp á nýtt stig. Orðinn er til vettvangur sem gengur í takt við framboð og eftirspurn og viðskipti geta átt sér stað með auðveldari hætti en áður hefur þekkst.Nú þegar áhrif á norrænan vinnumarkaðAukin umsvif deilihagkerfisins hafa þegar haft umtalsverð áhrif á norrænan vinnumarkað. Þau störf sem skapast vegna deilihagkerfisins eru oftast framkvæmd í verktöku eða ekki gefin upp til skatts. Það er vel þekkt staðreynd að stór hluti deilihagkerfisins á Norðurlöndunum er hluti af svarta hagkerfinu og fæstir einstaklingar sem bjóða ferðamönnum eignir sínar eða þjónustu á forsendum deilihagkerfis uppfylla lög og skyldur sem skráð fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfa að fylgja svo sem skatta og gjöld, tryggingar, heilbrigðismál og aðgengi. Slíkt skekkir samkeppnisstöðuna, ógnar afkomu hefðbundinna ferðaþjónustufyrirtækja og setur þrýsting á launa- og starfskjör ákveðinna hópa.Umfangsmikil kaup fyrirtækja hækka húsnæðis- og leiguverð í þéttbýliÞá hafa umfangsmikil kaup einstaklinga eða fyrirtækja á húsnæði í þéttbýli í þeim eina tilgangi að leigja það út til ferðamanna á netinu leitt til hækkunar á húsnæðis- og leiguverði á mörgum þéttbýlisstöðum á Norðurlöndunum, s.s. Reykjavík, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Fyrir lág- og millitekjufólk verður því sífellt erfiðara að tryggja sér húsnæði og því neyðist það til að leita í úthverfin, sem hefur í för með sér að ferðatími til og frá vinnu lengist.Það eru augljóslega margvísleg tækifæri, á borð við betri upplýsingar, einfaldari samskipti og betri þjónustu, sem hafa skapast í kjölfar stafrænu byltingarinnar. Á hinn bóginn á stafræna byltingin sér neikvæðari hliðar sem norræna verkalýðshreyfingin þarf að mæta af krafti til að koma í veg fyrir hrun velferðarkerfisins. Markmiðið er ekki að stöðva stafrænu byltinguna, heldur þurfa aðilar vinnumarkaðarins i samvinnu við opinbera aðila að tryggja að stafræna byltingin leiði af sér hagvöxt, framleiðni, betri störf, vel menntað vinnuafl, styttri vinnutíma og félagslegan og efnahagslegan jöfnuð.