1. maí ávarp Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík

Tími hinna glötuðu tækifæra á að vera liðinn

 Því er haldið fram að Ísland hafi nú risið úr efnahagslægðinni og það drjúpi smjör af hverju strái í landinu. Húsnæðisverð hafi stöðugt hækkað undanfarin misseri og sé að ná fyrri hæðum fyrir hrun. Fjöldi ferðamanna er að nálgast tveggja milljóna markið og fer yfir það á þessu ári. Sagt er að kaupgleði landans hafi aftur tekið við sér enda verðgildi íslensku krónunnar stigið þannig að kaupmáttur hefur vaxið síðastliðin tvö ár meira en dæmi eru um í langan tíma. Innflutningur nýrra bifreiða er sagður slá aftur gamalkunnug met. Fyrirtækin eru farin að skila hagnaði og færa eigendum sínum himinháar fúlgur í arð á hverju ári. Á nokkurra mánaða fresti berast okkur fréttir frá erlendum matsfyrirtækjum um að Íslendingar séu einstakir í samfélagi þjóðanna sem fóru í gegnum efnahagskreppuna haustið 2008. Landið sé að rísa hraðar en dæmi eru um meðal annarra þjóða. Því er haldið fram nú að íslenska ríkið með sína þrjá gjaldþrota banka haustið 2008, uppurinn gjaldeyrisforða og ógjaldfæran Seðlabanka, sé nú á árinu 2017 að verða skuldlaust.Þegar skyggnst er bak við þetta meinta veisluborð, þá koma samt ýmsir váboðar í ljós, sérstaklega gagnvart okkur, þessu venjulega íslenska launafólki sem ber alltaf á endanum ábyrgð á sameiginlegum sjóðum ríkisins og þjóðarbúinu.Við tökum öll eftir því sem ökum um göturnar í borgarlandinu eða á þjóðvegum landsins, að stofnbrautir um allt land eru meira og minna ónýtar. Grunnþjónusta sem almenningur þarf að geta treyst á, á borð við löggæslu, dómstóla og ýmsa opinbera þjónustu, hefur tekið á sig svo miklar skerðingar að öryggi borgaranna er í hættu. Í hinu norræna velferðarkerfi er heilbrigðisþjónustan gjaldfrjáls, en á Íslandi eru sjúklingar blóðmjólkaðir og tekjulind bæði ríkis og einkarekinna heilbrigðisfyrirtækja. Í hverri einustu viku heyrum við af fárveiku fólki sem þarf að greiða svimandi reikninga fyrir læknisþjónustu sem væri þeim að kostnaðarlausu ef það byggi í öðrum Evrópulöndum. Þjóðarsjúkrahúsið er í stöðugum vandræðum að fjármagna þjónustu sína ár eftir ár á meðan stöðug umræða er um að afhenda hluta hennar til einkaaðila. Eldri borgurum landsins, sem við eigum allt að þakka fyrir að hafa byggt upp þetta land, þökkum við nú með því að stía jafnvel hjónum sundur og flytja annað þeirra í fjarlægan landshluta. Ríkið þar sem allt gengur svona vel hefur ekki efni á því að greiða samningsbundinn kostnað hjúkrunarheimila, þannig að mörg þeirra hafa orðið að draga saman þjónustu eða varpa fjárhagsábyrgðinni á sveitarfélögin. Allt skólakerfi landsins ber sig illa undan niðurskurði og fjárskorti. Þúsundir íbúða eru í smíðum í landinu en hinn almenni launamaður og launakona eiga ekki möguleika á því að kaupa eða leigja.Það er undarleg hagfræði hjá stjórnmálamönnum, í landi þar sem allt flýtur í peningum, ríkið að verða skuldlaust og atvinnuvegirnir hafa blómstrað undanfarin ár, að halda því fram að ekki sé hægt að standa undir gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi, skólakerfi, vegum landsins og öryggi landsmanna.Verkalýðshreyfingin hlýtur að staldra við í þessu ástandi og spyrja áleitinna spurninga um hvort það sé eðlilegt að misjafnir sauðir í atvinnurekendastétt eigi að hafa öll ráð í hendi sér gagnvart því fólki sem heldur uppi þjóðfélaginu með vinnu sinni.

  • Er eðlilegt að atvinnurekendur geti með einföldum ákvörðunum stjórna sjávarútvegsfyrirtækja svipt fólk í heilu byggðarlögum atvinnu og lífsviðurværi?
  • Er líðandi að sömu sægreifum í sjávarútvegi hafi liðist að neita sjómönnum um sanngjarnan kjarasamning í sex ár og að það skyldi taka 10 vikna verkfall til að koma vitinu fyrir atvinnurekendur.
  • Er ásættanlegt að stjórnvöld hafi með fullri vitund og ásetningi búið til aðstæður sem einkafyrirtæki í heilbrigðiskerfinu geti nýtt sem gróðalind eigendanna? Eigum við að líða það að sjúkdómar fólks og veikindi séu grundvöllur arðgreiðslna til lækna og eigenda einkafyrirtækja?
  • Er það eðlilegt að ríkisstofnanir og jafnvel ráðuneytin séu mönnuð af ræstingarfyrirtækjum í eigu einkaaðila sem hagnast á sölu á vinnu margra þeirra sem bera minnst úr býtum fyrir vinnu sína? Er það siðlegt að þeir sem sitja í æðstu stöðum ríkisins með sín fínu laun í boði kjararáðs standi síðan fyrir því að starfsmenn í sömu stofnunum séu arðrændir?
  • Er eitthvað eðlilegt við það að fyrirtæki hér á landi, annað hvort innlend eða erlend, geti flutt inn erlenda starfsmenn og greitt þeim laun jafnvel langt undir lágmarkslaunum? Síðan veita þessi fyrirtæki starfsmönnum sínum engar upplýsingar, hvorki um vinnumarkaðinn, tungumálið eða menningu Íslands og senda þá síðan úr landi þegar upp kemst um glæpinn.
  • Er það í lagi þegar mansalsmál koma upp hér í samfélaginu, að fólkið sem lendir undir stjórn misindismanna í atvinnurekendastétt eigi það eitt úrræði að lokum að flýja til útlanda á vald fyrrum kvalara sinna? Er þetta í lagi?
  • Er það í lagi að hálfri öld frá því að sett voru lög í landinu um jöfn laun karla og kvenna skuli enn ríkja hér ójöfnuður í launum sem einungis verður skýrður með launamun kynjanna? Er í lagi að viðhorf atvinnurekenda og stjórnenda hafa staðið í vegi fyrir árangri á þessu sviði? Nú segja stjórnmálamenn að „jafnlaunavottun“sé lykillinn að lausninni. Við munum fylgjast grannt með því.
  • Eigum við áfram að sætta okkur við það að lögin í landinu og skattlagning eigna og tekna séu ætíð með þeim hætti að eignir Íslendinga safnist á færri og færri hendur? Meðan frítekjumark eldri borgara er lækkað um rúmar 100 þúsund kr. á mánuði lifir fjöldi Íslendinga í Florida góðu lífi á arðgreiðslum og fjármagnstekjum ævilangt.

Íslendingar hafa lengi alið með sér þann draum að komast í stöðu hinna Norðurlandaþjóðanna í félags- og efnahagsmálum. Þar er byggt á stöðugleika í efnahagsmálum og félagslegu réttlæti. Þeim fjölgar sem betur fer Íslendingum sem búið hafa á Norðurlöndum og sjá að þar nýtur fólk réttinda í menntun, heilbrigðis- og félagsmálum og mikils öryggis sem er langt umfram það sem við þekkjum hér á landi.Það er engin eftirspurn lengur eftir sveiflukenndum lífskjörum, þar sem atvinnurekendur og stjórnvöld ræna okkur lífsviðurværinu, atvinnunni og félagslegri stöðu einu sinni á áratug. Þess vegna var það svívirða að stjórnmálamenn og embættismenn skyldu komast upp með það, með verkfærinu kjararáði og lagasetningu á Alþingi, að stöðva þessa miklu umbótaaðgerð sem fólst í nýju íslensku samningalíkani að norrænni fyrirmynd. Verkalýðshreyfingin hefur oft sýnt, nú síðast með áformuðu átaki í húsnæðismálum, að afl hennar getur riðið baggamuninn þegar á reynir.Er ekki kominn tími til að kreppa hnefana og láta finna fyrir sér?Er tími hinna glötuðu tækifæra ekki orðinn nógu langur?Er ekki tími til að launafólk skerpi átakalínur svo um munar?Baráttudagur launafólks 1. maí er sannarlega dagurinn til að vinna ný heit um umbætur í þágu launafólks.