Ályktun stjórnar Eflingar um yfirstandandi kynningarherferð ASÍ

18. 05, 2018

Stjórn Eflingar – stéttarfélags samþykkti á fundi sínum þann 17. maí ályktun vegna yfirstandandi kynningarherferðar ASÍ. Ályktunin er svohljóðandi: „Stjórn Eflingar fordæmir nýlegar auglýsingar ASÍ undir yfirskriftinni „Sterkari saman“ og telur að sá boðskapur sem ASÍ boðar um þessar mundir vinni gegn hagsmunum félaga í Eflingu-stéttarfélagi.“

Formaður Eflingar tók heils hugar undir ályktun fundarins og bætti við í eigin yfirlýsingu: „Kynningarefni ASÍ byggir á villandi söguskoðun og staðleysum. Það var ekki róttæk verkalýðsbarátta sem skapaði vandamál í lífum fólks fyrir árið 1990. Árin eftir Þjóðarsáttina hafa einkennst af aukinni misskiptingu líkt og rannsóknir hafa rækilega sýnt. Fyrir fólk sem upplifði efnahagshrunið 2008 er hlægilegt að tala eins og að engar kollsteypur hafi orðið í efnahagslífinu síðan árið 1990.“

Ályktunin kemur á hæla yfirlýsingar sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sendi frá sér þann 8. maí en þar sagði meðal annars: „Er ekki tímabært að forysta ASÍ sjái sóma sinn í því að halda sér til hlés þegar svo er komið að enginn samhljómur er lengur á milli hennar og verkafólks?“